Krafist verður skaðabóta eða riftunar

Verið er að undirbúa kröfubréf og í öðrum tilvikum riftunarbréf fyrir tuga eigenda bíla sem áður voru í eigu bílaleigunnar Procar, að sögn Páls Bergþórssonar, lögmanns hjá Rétti. Þetta kemur fram á ruv.is. Samhliða kröfubréfunum segir Páll að til standi að kæra Procar til lögreglunnar fyrir auðgunarbrot. Hann segir það klárlega svik þegar kaupendur eru blekktir á þennan hátt. Það hve mikið bíllinn sé ekinn, ráði oft miklu um það hvort fólk ákveði að fjárfesta í honum eða ekki.

Þá hafi þeir sem hafi leitað til hans margir hverjir lent í því að ýmislegt í bílunum hafi verið farið að bila mun fyrr en eðlilegt er, sé miðað við ekna kílómetra á mæli. Það geti verið mjög hættulegt og dregið úr umferðaröryggi. 

Réttur heldur einnig utan um mál bílasölunnar Bílamarkaðarins, sem er ein þeirra bílasala sem sá um að selja bíla Procar. Páll segir málið kasta ákveðinni rýrð á margar bílasölur og stéttina almennt. „Þeir eru árum saman búnir að vera með sviknar vörur frá aðilum sem þeir ættu að geta treyst.“

Greint var frá því í fréttaskýringaþættinum Kveik á dögunum að átt hafi verið við kílómetrastöðu í bílum Procar og þeir svo seldir. Þetta var stundað frá árinu 2011 til 2016, hið minnsta. „Fólk fer ýmist fram á skaðabætur eða riftun og þá endurgreiðslu á öllu kaupverði bílsins. Forsendur fyrir kaupum á bílum frá Procar eru gjörsamlega brostnar og kaupsamningarnir riftanlegir. Þessir bílar eru augljóslega gölluð vara,“ segir Páll. „Fólk sem til okkar hefur leitað hefur keypt bílana úr ýmsum áttum, yfirleitt af grandlausum endursöluaðilum.“

FÍB, Samtök ferðaþjónustunnar, Neytendasamtökin, Bílgreinasambandið og Samgöngustofa sátu fund saman fyrir helgina í framhaldi af fréttum um sviksamlegt hátterni Procar bílaleigunnar. Þar var rætt um hvernig er hægt að bregðast við því óöryggi og tjóni sem hefur skapast vegna ólögmætrar sölu bílaleigubíla með falsaðri kílómetrastöðu? Hvernig er hægt að endurheimta traust almennings og vinna að úrbótum til framtíðar?

Fram kom að Bílgreinasambandið ætlar á næstunni að opna fyrir aðgang á vefsíðu sinni (bgs.is) að ökutækjaskrá fyrir þá sem vilja kanna hvort tiltekinn bíll hafi verið til umráða hjá bílaleigu en í eigu fjármögnunarfyrirtækis, ásamt því að sjá skoðunarferil bílsins og fleira. Upplýsingar um umráðamenn eru alla jafna ekki sýnilegar almenningi.

Þá hafa nokkur bílaumboð hvatt bíleigendur til að hafa samband til að fá aðstoð ef grunur leikur á svikinni kílómetrastöðu. FÍB og Bílgreinasambandið hafa kannað hjá bílaumboðunum hvort aksturstölvur geymi raunverulegan akstur þó átt hafi verið við mælastöðu, en svo virðist ekki vera nema í örfáum tilfellum í dýrari gerðum bíla. Mögulega geta upplýsingar um gangstundir bílvéla varpað ljósi á heildarakstur.

FÍB, Samtök ferðaþjónustunnar, Neytendasamtökin, Bílgreinasambandið og Samgöngustofa sendu frá sér fréttatylkynningu í gær til fjölmiðla um niðurstöðu sameiginlegs fundar. Fréttatilkynninguna má nálgast hér.