Krefjast hærri bóta vegna útblásturshneyklisins

Réttarhöld hófust fyrir þýska ríkisdómstólnum í Karlsruhe í gær þar sem tekið var fyrir hið fræga mál þegar Volkswagen bílaframleiðandinn var uppvís að því að koma fyrir hugbúnaði í tölvukerfi dísilknúna bílgerða sinna. Búnaðurinn átti að fegra stórlega niðurstöður mengunarmælinga bílanna. Upp komst um málið 2015 og hefur síðan dregið dilk á eftir sér.

Samkvæmt þýskum fjölmiðlum er talið að ríkisdómstóllinn geti veitt eigendum bílanna sem misnotaðir voru ákveðna von um hærri bætur. Áður var Volkswagen búið að ná ákveðnum sáttum við þýsku neytendasamtökin og ADAC, félag þýskra bifreiðaeigenda, um bætur til handa þeim sem urðu fyrir barðinu vegna útblásturshneyklisins. Margir voru ekki sáttir með þessa niðurstöðu og fóru með málið fyrir ríkisdómstólinn í Karlsruhe.

Ljóst þykir að réttarhöldin muni ryðja brautina fyrir tugþúsundir annarra mála sem eru í bið í þessu fræga dísilmáli. Fyrsta mat dómaranna í málinu þykir veikja stöðu Volkswagen í málinu enn frekar en orðið var. Dómararnir fóru hörðum orðum um framgang Volkswagen í málinu allt frá upphafi. Forseti dómstólsins sagði í gær á fyrsta degi réttarhaldana að málsvörn Volkswagen í málinu væri á veikum grunni byggð. Vísvitandi blekkingum hafi verið beitt í málinu og eigendur bílanna hefðu orðið fyrir skaða. Verjendur Volkswagen sögðu fyrirtækið hefði allt tíð reynt að koma til móts við bíleigendur í þessu máli og munu gera það áfram.

Mun hærri bóta er krafist en áður hafði náðst sátt um. Ein slík kemur frá eftirlaunaþega nokkrum sem keypti notaðan VW Sharan árið 2014 á rúmlega 30 þúsund evrur. Hann krefst þess að fá umrædda upphæð greidda til baka auk vaxta. Hann segir að ef hann hefði vitað um þessar blekkingar hefði hann aldrei keypt bílinn. Mál hans hafði áður verið tekið fyrir í héraðsdómstólnum í Koblenz og var niðurstaðan að Volkswagen ætti að greiða honum 25 þúsund evrur. Við þá niðurstöðu var ekki unað og málinu því skotið til ríksdómstólsins í Karsruhe.

Fróðlegt verður að fylgjast með gangi málsins og þykir ekki ólíklegt að þeir sem urðu fyrir barðinu á þessu dísilhneyksli eigi rétt til mun hærri bóta en áður var talið.