Kristján Möller segir FÍB vinna ófaglega

Kristján Möller fyrrum samgönguráðherra og baráttumaður fyrir hlutafélaga- og vegatollavæðingu þjóðveganna út frá höfuðborgarsvæðinu er ókátur yfir undirskriftasöfnun FÍB gegn þessu áhugamáli hans og segir félagið standa ófaglega að málum. FÍB hlýtur vitaskuld að þurfa að hugsa vel sinn gang þegar slíkur fagmaður sem hann mælir svo.

En svör hans og skýringar í fréttaviðtali á Vísi eru heldur léttvæg þótt hann sé óspar á fullyrðingar um að FÍB tali með klofinni tungu. Hann segir m.a: „Mér finnst sorglegt hvað FÍB rangtúlkar allt í þessu samhengi og setur fram vitlausar tölur. Það er mjög alvarlegt."

Hinn faglegi þingmaður nefnir þó ekki einu orði hvaða tölur FÍB fari rangt með. Hann ber sig karlmannlega og lætur eins og það sé ekkert tiltökumál þótt fólk mótmæli. Fólk sé nú svosem að mótmæla ýmsum hækkunum á þessum erfiðu tímum og það sé bara eðlilegt. Þá fullyrðir hann að 50 til 60 prósent hafi mótmælt í Noregi upptöku vegatolla og þeir hafi nú samt orðið að veruleika þar. Loks leggur hann áherslu á að rangnefni sé að kalla umrædd gjöld vegtolla. Réttara sé að tala um notendagjöld.

Engu er líkara en hann telji að þessi gjöld verði léttbærari þeim landsmönnum sem hann hefur útvalið eftir búsetu að skuli greiða þau, heiti þau eitthvað annað en vegatollar.

 Af málflutningi þingmannsins má þó vel ráða að honum er brugðið yfir þeim undirtektum og hljómgrunni sem undirskriftasöfnun FÍB hefur fengið hjá landsmönnum. En jafnframt má lesa úr svörum hans að hann er staðráðinn í því að hafa vilja þeirra 30 þúsund manna og kvenna sem á þessari stundu hafa undirritað mótmælin gegn vegatollahugmynd hans að engu. Hann segir:

„Aðalatriðið er að Alþingi Íslendinga hefur samþykkt lagafrumvarp sem heimilar samgönguyfirvöldum að stofna félög utan um þessar framkvæmdir, taka til þess lán og endurgreiða þau með útfærðum notendagjöldum, sem ég endurtek að eru algjörlega óútfærð enn sem komið er. Upphæðin liggur ekki fyrr þar til þessar þrjár breytur verða komnar á hreint,"

Af þessum orðum þessa fyrrverandi samgönguráðherra sem talar eins og hann sé enn samgönguráðherra, er ljóst að hann ætlar hvergi að hvika frá því markmiði sínu að girða höfuðborgarsvæðið af með vegatollamúr og rýra með því stórlega afkomu og möguleika íbúa Suður-, Suðvestur- og Vesturlands til atvinnu, búsetuvals og ferðalaga um eigið land.

Rétt er því að minna á að undirskriftasöfnuninni er hvergi nærri lokið. Henni lýkur kl. 12.00 á hádegi næstkomandi þriðjudag. Því fleiri sem undirrita mótmælin gegn þessu gerræði, þeim mun erfiðara verður fyrir þingmanninn og aðra þá þingmenn sem honum fylgja í þessu máli, að keyra ruglið um vegatolla og hlutafélagavæðingu tiltekinna lykilleiða í íslenska þjóðvegakerfinu í gegn.

Hér má finna grein (og hér) þar sem sjónarmið FÍB í þessu máli eru reifuð.