Kynning á fyrir­huguðum Sæbrautar­stokk

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti í gær að kynna skipulagslýsingu vegna deiliskipulagsgerðar fyrir Sæbrautarstokk og tengdar deiliskipulagsáætlanir. Sæbrautarstokkur er í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 og ein af lykilframkvæmdum Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Stefnt er að því að framkvæmdir við stokkinn hefjist árið 2027 og verði lokið árið 2030.

Meginmarkmið með stokknum eru að bæta umferðarflæði og umferðaröryggi, draga úr umhverfisáhrifum bílaumferðar, bæta tengingar milli hverfa og skapa vistvænt og aðlaðandi borgarumhverfi. Á yfirborði stokksins er gert ráð fyrir nýjum borgargarði með gróðri, göngu- og hjólastígum og góðri aðstöðu til útivistar og samveru.

Skipulagsvinnan kallar á breytingar á deiliskipulagi fyrir Vogahverfi og hluta Vogabyggðar. Jafnframt verður unnið að nýju deiliskipulagi fyrir svæðið austan við stokkinn, svokallaða Vogabyggð 4, auk deiliskipulags fyrir nýja skiptistöð Borgarlínu við Vogatorg.

Skipulagslýsing er í raun verklýsing vegna deiliskipulagsgerðar. Tilgangur skipulagslýsingarinnar er að greina frá svæðinu, áherslum og markmiðum við skipulagsgerðina, forsendum sem liggja að baki og skipulagsferlinu.

Kynning og samráð framundan

Skipulagslýsingin verður auglýst í samræmi við skipulagslög og gefst almenningi, hagsmunaaðilum og stofnunum tækifæri til að senda inn athugasemdir og ábendingar gegnum Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar. Allar umsagnir sem berast verða hafðar til hliðsjónar við deiliskipulagsgerðina. Að kynningu lokinni verða tillögur að nýjum deiliskipulagsáætlunum og breytingar á öðrum deiliskipulagsáætlunum kynntar hver fyrir sig.

Áætlað er að halda kynningarfund fyrir íbúa og aðra hagaðila samhliða kynningum á skipulagsáætlunum sem verður kynntur nánar þegar nær dregur.

 

Hægt er að nálgast allar fréttir á fibfrettir.is