Lækkun eldsneytisverðs hefur jákvæð áhrif á verðbólguþróun

„Flest bendir til að ekki sé von á lækkun á eldsneytisverði á næstu mánuðum og verðið muni áfram haldast hátt. Á árinu 2002 beitti ríkisstjórnin sér fyrir tímabundinni lækkun á bensíni vegna til að hafa áhrif á kjarasamninga sem þá var stefnt í hættu vegna verðlagshækkana m.a. á eldsneyti. Það er skynsamlegt að fara sömu leið nú ekki síst m.t..t. jákvæðra áhrifa á verðlagsþróun og kjarasamninga sem nú er stefnt í hættu.“

Þessi orð sem hér að ofan standa gætu sannarlega hafa verið sögð af áhrifamanneskju í stjórnarandstöðu eða verkalýðshreyfingu alveg nýlega. Svo er þó ekki hvað það síðasttalda varðar, því að þetta er úr pistli sem Jóhanna Sigurðardóttir núverandi forsætisráðherra sagði í pistli 30. september 2005 og lesa má hér í heild sinni.

Þessi pistill Jóhönnu á fullt erindi til almennings nú þegar fjármálaráðherra hennar sjálfrar aftekur gersamlega að gefa eyri eftir af ríkisálögum á eldsneytið sem þyngdar hafa verið verulega í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu sjálfrar. Og nú þegar fjármálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur  stefnir leynt og ljóst að því að þyngja álögurnar enn frekar hljótum við að vona að Jóhanna bregðist við og ræði aðeins við hann og kynni honum vilja sinn frá 30. september 2005.

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir ritaði umræddan pistil  var kaupmáttur launafólks talsvert meiri en nú eftir efnahagshrunið og hrun krónunnar. Frá því að ríkisstjórnin dró úr álögum sínum á eldsneytið um mitt ár 2002 hækkaði heimsmarkaðsverð þess jafnt og þétt og útsöluverðið hér á landi sömuleiðis. Frá júlí 2002 til september 2005 hækkaði útsöluverð bensínlítrans 97 kr. í 121.50 eða um 25% á hvern lítra.

Semsé, þegar Jóhanna Sigurðardóttir ritaði pistil sinn kostaði bensínlítrinn 121,50. Í dag er hann helmingi dýrari og kostar 243 krónur í sjálfsafgreiðslu – og ríkisstjórnin vill þyngja álögur enn frekar og hækka hann enn meir. Það er umhugsunarefni.