Lækkun á heimsmarkaðsverði ætti að fara að skila sér til Íslands

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, telur að lækkun á heimsmarkaðsverði á eldsneyti ætti að fara skila sér til Íslands. Hann segir að samkeppni sé að aukast á eldsneytismarkaði. Atlantsolía, Dælan, Orkan og ÓB hafa lækkað bensínverð á sumum stöðvum að undanförnu og fært það nær verðinu í Costco. Þetta kom fram í viðtali við Runólf í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Fram kom ennfremur að þessar stöðvar selja bensínlítrann á um 211 krónur en á öðrum stöðvum er verðið um og yfir 230 krónur. Runólfur segir að álagning á eldsneyti hafi verið óeðlileg hér á landi og að markaðurinn sé dæmi um fákeppnismarkað. Samkeppni sé að myndast um lággjaldastöðvar. 

Fram kom í máli Runólfs í morgun að það getur munað hátt í þrjátíu krónum á bensínlítranum ef fólk verslar við Costco. Hann segir að bensínmarkaðurinn á Íslandi verði sífellt líkari markaðsmódeli Costco, með auknum eignatengslum stórmarkaða og olíufélaga. Nýlega festi N1 kaup á Festi sem rekur matvöruverslunina Krónuna og Hagar keyptu Olís árið 2017.

Vikið er að öðrum áhugaverðum málum í viðtalinu við Runólf, þar á meðal Procar-málinu. Viðtalið er hægt að nálgast hér.