Lagafrumvarp um lækkaða eldsneytisskatta

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fylgir úr hlaði á alþingi í dag lagafrumvarpi um lækkun eldsneytisskatta. Meðflutningsmenn hans að tillögunni eru allt þingmenn Sjálfstæðisflokks, Þau Pétur Blöndal, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson,  Guðlaugur Þór Þórðarson, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson,  Ólöf Nordal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,  Sigurður Kári Kristjánsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Í tillögu Tryggva felst það að lækka tímabundið olíu- og bensíngjald, sem er föst krónutala. Verði frumvarpið að lögum mun það þýða að eldsneytislítrinn lækkar um í kring um 28 krónur.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að hlutur eldsneytis sé um 7%-8% í neyslu heimilanna. „Mikil verðhækkun eldsneytis skerðir því möguleikana á neyslu annarra vörutegunda. Fólk nær að bregðast að einhverju leyti við með því að draga úr eldsneytisnotkun, sérstaklega til lengri tíma litið. Þannig hefur eldsneytissala dregist saman um 7% frá sama tíma í fyrra og umferð hefur minnkað um rúm 6% frá áramótum samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar. Til lengri tíma litið skipta heimilin yfir í sparneytnari bifreiðar og ódýrari orkugjafa, svo sem metan, rafmagn og vetni, auk þess sem almenningssamgöngur verða fýsilegri kostur.“ Síðan segir:

 Áhrif af aðgerðinni

    „Lækkun skatta á eldsneyti leiðir beint til hækkunar ráðstöfunartekna, einkaneyslu og hagvaxtar. Útreikningar fjármálaráðuneytisins sýna að ráðstöfunin lækkar vísitölu neysluverðs um 0,8%–0,9%. Ef miðað er við að verðbólgumarkmið Seðlabankans haldi, sem er 2,5%, jafngildir skattalækkunin tæplega 3,5% nafnlaunahækkun fyrir launþega á Íslandi.

    Lækkun skatta á eldsneyti leiðir beint til lækkunar vísitölu neysluverðs sem aftur lækkar höfuðstól verðtryggðra lána heimila og fyrirtækja og afborganir af þeim. Verðtryggðar skuldir heimilannar eru nú taldar nema um 2.000 milljörðum kr. Lækkun neysluverðsvísitölu um 0,8%–0,9% vegna ráðstöfunarinnar er talin geta lækkað skuldir heimilanna á bilinu 16–18 milljarða kr. tímabundið.

    Áhrif aðgerðarinnar bein og óbein væru veruleg og mundu leiða til jákvæðra áhrifa á hagvöxt. Framundan er mesti álagstími ferðaiðnaðarins og lækkun eldsneytis mundi virka eins og vítamínsprauta á greinina, hafa jákvæð áhrif á landsbyggðina sem og landið allt og styrkja innviði greinarinnar. Áhrifin mundu einnig leiða til lækkunar á flutningskostnaði og t.d. leiða til lækkunar vöruverðs.“