Lagfæringar á VW dísilvélunum virðast duga

Hið þýska systurfélag FÍB; ADAC, er fyrsti óháði aðilinn í Evrópu sem hefur tekið út lagfæringu og uppfærslu Volkswagen á 1,2 l dísilvélinni – þeirri sem er  í VW Polo. ADAC mældi VW Polo 1,2 TDI bæði fyrir og eftir viðgerð. Niðurstaðan er sú að viðgerðin sé fullnægjandi og án óæskilegra áhrifa á afl og eyðslu. Eftir hana minnkaði losun NOx (níturoxíða)  um 22 prósent en afköst og eldsneytiseyðsla breyttist nánast ekkert.

Volkswagen vinnur nú að því, m.a. hér á Íslandi, að lagfæra þá dísilbíla sem í var búnaður sem framleiðandi hafði komið fyrir í bílunum. Þessi ólöglegi búnaður hreinlega slökkti á mengunarvarnarbúnaði bílanna í venjulegri notkun en ræsti hann aðeins þegar bílarnir voru afkasta- og mengunarmældir. Af þessum ástæðum varð raunmengun frá bílunum allt önnur og meiri en mátt hefði ætla út frá gerðarviðurkenningargildum bílanna sem eru m.a. forsenda skattlagningar á bílana. Volkswagen gerði sig því sekan um svik, bæði við kaupendur bílana og samfélagið.

Einn af þjónustubílum FÍB er einmitt VW Polo með 1,2 l dísilvélinni og er hann nýlega kominn úr þessari lagfæringu. Þeir sem aka og umgangast þennan bíl hafa enga breytingu merkt á afli eða eyðslu bílsins eftir viðgerðina.

Prófun ADAC á bílnum með 1,2 dísilvélinni var mjög nákvæm og ítarleg, bæði fyrir viðgerðina og eftir hana. Bíllinn var m.a. mældur samkvæmt NEDC staðlinum (New European Driving Cycle), en NEDC mæling hefur einmitt hingað til verið grundvöllur þeirra eyðslu-, mengunar-, og afkastagilda sem tíunduð eru í gerðarviðurkenningargögnum bíla. Mæling ADAC eftir viðgerð sýndu engin marktæk frávik frá gerðarviðurkenningargildum Polo bílsins. Bæði ADAC og fleiri systurfélög FÍB í Evrópu gerðu í júní sl. samskonar rannsóknir á öðrum bílum frá VW Group með 2,0 l dísilvélum bæði fyrir og eftir viðgerð. Niðurstaðan þá var svipuð og nú: Engin marktæk frávik frá gerðarviðurkenningargildum fundust.