Lagfæringin á VW dísilbílunum prófuð af ADAC/FIA – engin neikvæð áhrif fundust

Sú upfærsla og breyting sem Volkswagen hyggst gera á þeim dísilbílum sem hinn ólöglegi búnaður sem fegraði útblástursmengunargildi bílanna er í, virðist ekki hafa áhrif á afl og afköst bílanna til hins verra. Rannsókn sem ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi hefur gert í samvinnu við FIA, leiðir þetta í ljós.

Rannsóknin fór þannig fram að útblástur, mengun, afl, afköst og eyðsla bíla með svindlhugbúnaðinn margfræga var allt mælt nákvæmlega. Síðan var svindlbúnaðurinn fjarlægður og stjórntölvur bílanna uppfærðar með nýjum hugbúnaði, allt nákvæmlega eftir þeirri forskrift sem VW hefur gefið út. Að því loknu voru bílarnir mældir á ný og er niðurstaðan sú að eyðsla þeirra breyttist ekki eftir uppfærsluna, bílarnir urðu ekki aflminni og útblástursmengun var innan marka.

Íslenskir eigendur bíla með svindlbúnaðinum þurfa líklega vart að kvíða því að óæskilegar breytingar verði á bílum þeirra eftir að búið verður að uppfæra þá. Sjálf uppfærslan á bílunum sem um ræðir verður eigendum að kostnaðarlausu og í Evrópu verður eigendum bílanna skylt að koma með bílana í hana og þar með líka hér ef vænta má.

Rannsókn ADAC náði til bíla af gerðunum VW Golf og þriggja undirgerða Audi A4 Avant. Allir bílarnir voru með 2,0 TDI dísilvélarnar frá Volkswagen. Stjórntölvur vélanna voru uppfærðar með nýjum hugbúnaði frá Volkswagen sérstaklega smíðaður til að vinda ofan af pústsvindlmálinu sem og annar búnaður eins og ný loftinntök o.fl. sem allt hefur nú loks verið tekið út og viðurkennt af þýskum yfirvöldum.  

Prófun ADAC fór fram í tvennu lagi. Annarsvegar var prófað samkvæmt NEDC forskriftinni (The New European Driving Cycle), en sú forskrift er grundvöllur gerðarviðurkenningar nýrra bíla í Evrópu. Hvað varðar eldsneytiseyðslu hefur NEDC ferlið mjög verið gagnrýnt fyrir það að gefa hagstæðari eyðslu- og útblásturstölur en hægt er með góðu móti að fá fram í venjulegri notkun. En NEDC-mæling ADAC sýndi ekki marktækan mun á bílunum fyrir og eftir uppfærsluna. En geta verður þess að einungis ein vélargerð var prófuð. Niðurstöður geta hugsanlega orðið öðruvísi varðandi aðrar vélastærðir sem eru 1,2, 1,6 og 1,8 l að rúmtaki.

En ADAC prófaði einnig bílana samkvæmt eigin mæliforskrift sem framkvæmd er í venjulegum akstri við mismunandi skilyrði, m.a. í hraðbrautaakstri. Ennfremur prófaði ADAC bílana eftir hinni nýju WLTC mæliforskrift (Worldwide Harmonized Light Vehicles Test Cycle) sem leysa mun NEDC staðalinn af hólmi á næsta ári. WLTC staðallinn á að nálgast raunverulegan akstur mun betur en NEDC, sem í þessari mælingu ADAC sýndi lítilsháttar aukna eldsneytiseyðslu en jafnframt umtalsvert minni losun NOx-sambanda.

Prófanir ADAC og FIA fóru fram í maí og júní sl á þremur stöðum samtímis;  Munchen í Þýskalandi, í Vínarborg hjá ÖAMTC og í Sviss hjá TCS.