Lagt til að skilagjald af bílum verði hækkað

Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis leggur til að skilagjald af bílum verði hækkað í 30.000 krónur, en það hefur verið 20.000 krónur í um sex ár. Þetta kemur fram í breytingatillögu við frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald.

 Í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag segir í nefndaráliti meirihlutans að með því að hækka gjaldið skapist hvati til að úr sér gengnum ökutækjum sé skilað á móttökustöðvar. Samband íslenskra sveitarfélaga segi í umsögn að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu þurfi að borga a.m.k. 30.000 kr. fyrir að fjarlægja ökutæki af víðavangi. Samkvæmt gjaldskrá Vöku kosti allt að 25.000 kr. að fjarlægja ökutæki.

Þá er geymslukostnaður ekki tekinn með. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur (HER) lagði til í umsögn sinni um frumvarpið að skilagjald af bílum yrði hækkað umtalsvert. HER bendir á að í frumvarpinu sé lagt til að gjaldið verði óbreytt, 20.000 krónur. HER efast um að þessi upphæð sé næg hvatning til eigenda að skila inn ökutækjum.

Í umsögn  heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur kemur fram að á árinu 2020 hafði það afskipti af 1.000 númerslausum ökutækjum á borgarlandi. Stóran hluta þeirra þurfti að fjarlægja af borgarlandi og taka í vörslu þar sem eigendur sinntu því ekki að fjarlægja bílana þrátt fyrir viðvörun og frest til að gera svo. „Ljóst er að 20.000 kr. hafa ekki verið nægur hvati til þess að eigendur þeirra hafi talið ástæðu til að sækjast eftir þeirri fjárhæð.

Af þessum 1.000 ökutækjum lenti kostnaður við að fjarlægja og farga um 190 ökutækjum á Reykjavíkurborg þar sem eigendur ýmist fundust ekki eða urðu ekki við áskorun um að leysa ökutækið út og greiða tilfallinn kostnað. telur að það geti varla talist sanngjarnt að sveitarfélagið beri allan kostnað af þessu. Eðlilegt sé að Reykjavíkurborg og HER eigi þess kost að fá skilagjaldið til að mæta útlögðum kostnaði við förgunina.