Land án hraðlestakerfis

http://www.fib.is/myndir/Oskar.jpg
Óskar Ásgeirsson er tölvufræðingur og áhugamaður um umferðaröryggismál.


Sú saga var sögð af útlendingi sem þjösnaðist vonda malarvegi norður í land með íslenskum vini sínum. Eftir að hann hafði lýst ánægju sinni með ferðina og borið tilheyrandi lof á náttúrufegurðina, bað hann vinsamlegast um að ekið yrði á hraðbrautinni til baka. Sagan segir margt um hvernig útlendingar hafa upplifað vegakerfið okkar í gegnum árin í samanburði við sitt eigið.

Sem betur fer er nú ákveðin vakning og metnaður að bæta hér úr með uppfærslu þjóðvegakerfisins. Það var merkilegt framfaraskref þegar samgöngumálaráðherra tók þá ákvörðun að byggja 2+2 veg milli Reykjanesbæjar og Reykjavíkur. Þar lagði hann hornstein að þessari framtíð. Samt mátti heyra mótmæli sumra talsmanna 2+1 lausnar fyrir mikilvægasta þjóðveg landsins. Þær raddir hafa vaknað að nýju gegn Suðurlandsveginum. Ég hef ekið í Svíþjóð ásamt flestum ESB löndum og kynnst ágæti 2+1 lausnar. En Svíar nota hana ekki á sína helstu og þýðingarmestu þjóðvegi og ég spyr hvers vegna ættu Íslendingar að gera það? Svarið liggur í mögulegum hámarshraða og burðargetu.

Umræðan snýst um hvort réttlætanlegt sé að byggja fjölförnustu þjóðvegi landsins frá höfuðborgarsvæðinu (70 km radíus) sem 2+2 vegi í stað 2+1. Lögð hafa verið fram þau rök að lítill munur sé á öryggi hvort sem byggður er 2+1 eða 2+2 vegur. Þó er viðurkennt að 2+2 er öruggari valkostur enda heldur einfalt víravegrið 2+1 vega ekki stærstu flutningabílum. Kostnaður við 2+1 er miklu minni og því hægt fyrir svipað fjármagn að koma meiru af óviðunandi vegakerfi í lag með þeirri aðferð. Þessi rök eru í sjálfu sér ágæt og eiga vel við marga fáfarnari vegakafla á landinu. Það hefur einnig borið við að sumir talsmenn 2+1 vega reyni að ala á falskri hræðslu um hættuna við hærri ökuhraða á 2+2 vegum. En það er nákvæmlega kosturinn og tilgangur 2+2 vega í hinum vestræna heimi. Nauðsynlegt er í því sambandi að benda á að ökutæki sem flutt eru til landsins eru hönnuð fyrir hámarksafköst og eldsneytisnýtingu miðað við venjulegan evrópskan hraðbrautarhraða.

Ekkert lestakerfi

Hér landi er ekkert hraðlestakerfi og því full ástæða til leggja ríka áheyrslu á aðra tegund hraðra samgangna. Til að auka skilvirkni kerfisins er eini raunhæfi kosturinn að byggja hefðbundnar vestrænar 2+2 hraðbrautir með tvöföldum vegriðum. Þar liggur munurinn á kostunum. Hægt er að auka afkastagetu 2+2 vegarins án þess að draga úr öryggi með hærri hámarkshraða. Hækkun hámarkshraða á 2+1 kemur niður á öryggi vegfarenda vegna þrengri vegar, takmörkuðum möguleika á framúrakstri og veikari vegriða. Með byggingu 2+1 vega er komið í veg fyrir eðlilegar framfarir í að tengja saman atvinnusvæði með skemmri ferðatíma. Sparnaðarsjónarmið eiga einfaldlega ekki við í þessu mikilvæga framfara máli á suðvesturhorninu. Auka þarf frekar fjármagn en að horfa í mesta mögulega sparnað. Tímasparnaður á hvern vegfarenda með 2+2 lausninni er meiri en 30% og því mjög þjóðhagslega hagkvæm lausn. Slík framkvæmd mun hafa víðtæk áhrif á byggðirnar í kringum höfuðborgarsvæðið.

Miklu öruggari

Það er með ólíkindum að ennþá megi lesa fullyrðingar um að hærri hámarkshraði þýði sjálfkrafa fleiri og alvarlegri slys án þess að aðstæður séu teknar inn í reikninginn. Ég bið lesendur ekki eitt augnablik að halda að hér sé verið að réttlæta hraðakstur eða ofsaakstur á nokkurn hátt, gegn því þarf að berjast með fullri hörku. Mesta og afdrífaríkasta hækkun hámarkshraða á hraðbrautum (16km til 32km hækkun) var framkvæmd í Bandaríkjunum árið 1997. Þar fækkaði banaslysum um rúmlega 100 en fjölgaði ekki um 6400 eins og sumir umferðarvitar höfðu reiknað út. Allt umferðakerfi Evrópu og Bandaríkjanna byggir á þeirri staðreynd að vel byggðir 2+2 vegir eru þeir öruggustu og bestu sem völ er á fyrir einkabíla. Milljónir manna aka af miklu öryggi á slíkum vegum dag hvern vel yfir íslenskum 90 km hámarkshraða.

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að til séu menn hér á landi sem óttast að byggt verði fullkomið þjóðvegakerfi frá Reykjanesbæ, Selfossi og Borgarnesi til Reykjavíkur með hærri hámarkshraða en 90 km. Ef einhver óttast slíkt þarf viðkomandi að taka bílaleigubíl í Evrópu (fyrir utan Noreg) eða í Bandaríkjunum til að prófa slíka vegi.

Umferðaröryggisyfirvöld í Evrópu hafa gefið það út að hættulegustu vegir Evrópu eru dæmigerðir íslenskir vegir með misjöfnum hámarkshraða, sem liggja í gegnum þorp og eru 1+1 vegir. Það er himinn og haf á milli 2+2 eða 1+1 vega. Árekstrar á 1+1 verða oftast fyrirvaralaut þegar tveir bílar rekast saman. Áreksturinn sjálfur er sambærilegur við það að ekið sé á fastan hlut á 180km hraða. Sama gildir ekki um 2+2 hraðbrautir þar sem allir aka í sömu átt. Við slíkar aðstæður margfaldast viðbragðstíminn og umferðaróhöpp eru vel undir árekstarþoli bifreiða í formi aftanákeyrslna. Það því mjög mikil blekking og í raun kjánaskapur að bera saman hámarkshraða á milli 1+1 og 2+2 vega. Það er líka ljóst að 90 km hámarkshraði á núverandi 1+1 vegum þar sem umferðaþungi er mikill er á ystu mörkum skynseminnar.

Breytilegur hámarkshraði

Til að hægt verði að nýta kosti 2+2 vega verður Alþingi að breyta umferðarlögum og setja reglur um uppbyggingu þeirra. Hækka þarf mesta löglega hámarshraða á 2+2 vegum og bendi ég á Danmörku sem viðmiðunarland fyrir Ísland. Gera þarf Vegagerðinni mögulegt að stjórna hámarkhraða á vegum eftir aðstæðum með þar til gerðum upplýsingaskiltum eins og notuð eru í hinum vestræna heimi til að vara ökumenn við hættum og birta mesta löglega hámarkshraða á hverjum tíma. Þannig verður hámarkshraði lækkaður sjálfvirkt við ísingu, rigningu, þoku eða vegna mikils hliðarvinds eftir þar til gerðum stöðlum. Nauðsynlegt er að lögregla geti stöðvað ökumenn samkvæmt reglum um breytilegan hámarkshraða. Það er ekki hægt í dag samkvæmt núverandi lögum.

Með því að byggja 2+2 vegi og setja eðlilegan hámarkshraða sparast milljarðar í vinnutapi og tímasparnaði án þess að gengið sé á umferðaröryggi á nokkurn hátt nema að síður sé. Það er sú framtíðarsýn sem er skynsamlegust fyrir þjóð sem byggir allt sitt á bifreiðum en ekki hraðlestum. Það er eðlilegt að fyrst verði vegurinn frá Borgarnesi til Akureyrar byggður sem 2+1 vegur með rökum þeirra sem vilja byggja slíka vegi í kringum Höfuðborgarsvæðið. Sama gildir um veginn frá Selfossi um Suðurland þó að í framtíðinni megi sjá fyrir sér hraðbraut til Akureyrar sem yrði stórkostlegt framfaraskref fyrir allt Norðurland. Kostnaður við slíkt verkefni er mikill en fullkomlega réttlætanlegur. Slíkur vegur myndi tengja Akureyri og Reykjavík saman á nýjan hátt. Ferðatíminn yrði undir þremur tímum í stað fjögurra nú.

Slík lausn gerir vegagerð fyrir hraða þungaflutninga um miðhálendið eins og Kjalveg óþarfa. 1+1 vegir eru barn síns tíma. Sparnaðurinn við slíka vegagerð er í raun álíka sparnaður og að byggja vegi með einbreitt malbik eða einbreiðar brýr. Í framtíðinni ætti engin 1+1 vegur að vera byggður heldur aðeins 2+1 vegir. Frá þeirri megin stefnu á síðan að víkja þegar tengja þarf fjölmennustu byggðalög landsins og þar á eðlilega að nýta kosti 2+2 hraðbrautarlausnarinnar. Hræðsla og úrtölur við hraðbrautir er ámóta eins og að ríða í bæinn til að mótmæla uppbyggingu símkerfisins.