Land Rover Defender í 65 ár

Það eru 65 ár síðan fyrsti Land Rover Defender bíllinn var settur saman í Bretlandi.  Frá árinu 1948 er búið að framleiða tvær milljónir Defender bíla.  Land Roverinn hefur verið hluti af íslenskri samgöngu- og verkmenningu allt frá upphafi framleiðslunnar.  Bíllinn náði fljótt miklum vinsældum og þá sérstaklega til sveita.  Vegaþjónusta FÍB á sjöunda áratugnum var með Defender bíla í þjónustunni.

Tímamótunum er fagnað með sérstakri afmælisútgáfu, Special Edition Defender LXV, sem er 65 í rómverskum tölum.  Ekki er vitað hvort BL, Land Rover umboðið á Íslandi, fái LXV til að selja hér á landi.

Bíllinn er með 2,2 lítra dísilvél og sexgíra gírkassa. Hestöflin eru 122 og hámarkstogið 360 Newton metrar.

Útlitslega skilur LXV útgáfan sig frá öðrum Defender bílum með sérhönnuðum 16 tommu ,,sagtanna“ (Sawtooth) felgum og svörtum stuðurum.  Bíllinn er með svart gæðaleður á sætum, stýri og miðjustokk og einkennisstafirnir LXV eru saumaðir í höfuðpúðana. Klæðningin er með áberandi appelsínugulum saumum sem auka á sérkenni bílsins.

Væntanlegir kaupendur sem eru hallir undir breska heimsveldið fagna því líklega að Defender LXV er með breskt flaggmerki á skutnum.  Fáir bílar eru breskari en Land Rover í hugum margra en sumir áttu erfitt með það þegar indverska fyrirtækið Tata Motors keypti Land Rover og Jagúar 2008.  Tata fyrirhugar að flytja hluta af Land Rover framleiðslunni til Indlands en LXV afmælisbíllinn er settur saman á Bretlandseyjum.