Langflestir kjósa að eiga og reka einkabíl þegar þeir geta valið um það

Það er furðulegt að fylgjast með árásum skipulagsyfirvalda í Reykjavík á bíleigendur. Skrif formanns skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur í Morgunblaðið 13. júlí voru af þessu tagi, allt var fundið einkabílnum til foráttu. Bílgreinasambandið hefur ekki lagst gegn eflingu almenningssamgangna en það er undarlegt að verða aftur og aftur vitni að því að skipulagsyfirvöld í Reykjavík telja sig geta beitt öllum meðulum gegn notendum einkabílsins og þannig gengið freklega á rétt þeirra sem hafa valið þann samgöngumáta. Þetta er þess sem kemur meðal annars fram í aðsendri grein Maríu Jónu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins, í Morgunblaðinu.

,,Er það hlutverk þeirra? Ættu skipulagsyfirvöld ekki að vera að huga að hagsmunum allra í samfélaginu í stað þess að fjandskapast við þann samgöngumáta sem langflestir landsmenn hafa valið sér? Þessi fjandskapur birtist meðal annars í langvarandi og viðvarandi framkvæmdastoppi umferðarmannvirkja í Reykjavík sem virðist miða að því að torvelda þeim sem hafa valið einkabílinn að nota hann,“ segir María Jóna.

Er nú svo komið segir María Jóna að ónauðsynlegar þrengingar torvelda umferð og bílastæðum í miðborg Reykjavíkur fækkar hratt. Þetta veldur fjölda fólks miklum óþægindum og erfiðleikum. Heildarfjöldi skráðra ökutækja í landinu var 385.448 um síðustu áramót og hafði þá fjölgað um 86.750 síðan árið 2011. Á sama tíma fjölgaði fólki með búsetu á Íslandi um 45.682. Ökutækjum hefur því fjölgað næstum tvöfalt meira en einstaklingum með fasta búsetu hérlendis. Fólksbílar á skrá við lok árs 2019 voru alls 269.825 og þar af voru 223.999 skráðir í umferð. Nýskráðir bílar árið 2019 voru langflestir á höfuðborgarsvæðinu. Hvað segir þetta okkur? Jú, þegar fólk getur valið þá velur það einkabílinn. Þannig hefur það verið frá því bíllinn kom fyrst til landsins fyrir rúmri öld og breytti samgöngum og lífi fólks í okkar dreifbýla landi.

María Jóna segir að einkabíllinn hefur þannig auðveldað líf fólks og gert því kleift að sigrast á þeim hindrunum sem við var að búa og öðru fremur stuðlað að aukinni hagsæld og betra lífi almennings. Sem sést auðvitað best af því að langflestir kjósa að eiga og reka einkabíl þegar þeir geta valið um það. Eins og áður sagði þá er ekkert að því að skipulagsyfirvöld í Reykjavík styðji við almenningssamgöngur en það verður að vera einhver skynsemi og sanngirni í ferlinu. Það er óeðlilegt að skipulagsbreytingar hafi það helst að markmiði að gera þeim erfitt fyrir sem vilja nota bílinn sem samgöngumáta en þegar á reynir kjósa langflestir höfuðborgarbúar að nota einkabílinn. Ljóst er að almenningssamgöngur verða ekki byggðar upp nema með gríðarlegum framlögum frá skattgreiðendum, meðal annars bíleigendum, sem eru skattlagðir um ríflega 80 milljarða króna á hverju ári.

Að lokum í greininni segir María Jóna að miklar breytingar hafa orðið á einkabílum undanfarin ár og ekkert lát er á því. Nýir orkugjafar og betri nýting þeirra sem fyrir eru hafa dregið stórlega úr eldsneytisnotkun og mengun. Fram undan eru spennandi tímar þar sem nýting einkabílsins mun batna enn frekar með tilkomu gervigreindar og deilikerfis. Allt eru þetta áhugaverð áform sem munu gera einkabílinn enn áhugaverðari kost fyrir almenning í landinu. Það er illt til þess að vita að þröngsýni og ofstæki skipulagsyfirvalda í Reykjavík vinni gegn þessu.