Langir trukkar betri en þeir styttri

Langir vöruflutningabílar eru heppilegri en þeir styttri ef marka má nýlega sænska rannsókn Chalmers tækniháskólans sem unnin var fyrir sænska umferðarráðið. Samkvæmt henni lenda löngu trukkarnir sjaldnar í alvarlegum umferðarslysum. Þá eru þeir umhverfisvænni vegna þess að flutningsrými þeirra er meira. Því þarf færri langa trukka en stutta til að flytja tiltekið magn varnings milli staða.

Í rannsókninni var könnuð slysatíðni langra og stuttra stórra vöruflutningbíla á tíu ára tímabili og það hversu oft löngu trukkarnir lentu í alvarlegum umferðarslysum og dauðaslysum í samanburði við stuttu trukkana. Sú tölfræðilega reikniforsenda slysatíðninnar var fjöldi dauðaslysa miðað við milljarð ekinna kílómetra. Í flokki langra trukka voru bílar sem eru 18,76-25,5 metrar að heildarlengd (dráttarbíll og tengi- eða festivagn). Þeir komu best út og höfðu átt þátt í talsvert færri alvarlegum umferðarslysum en miðlungslangir bílar sem eru 12,01-18,75 metra langir.

En versta útkoman reyndist vera hjá stuttum vörubílum sem eru undir 12 metrum að lengd. Slíkir bílar höfðu nefnilega átt þátt í lang flestum dauðaslysum og alvarlegum slysum í sænsku umferðinni þar sem vörubílar komu við sögu hið umrædda tíu ára tímabil. Slysin sem stuttu bílarnir áttu þátt í reyndust þrefalt fleiri en hjá löngu bílunum.

Höfundar rannsóknarskýrslunnar draga ekki sérstakar ályktanir út frá þessu um hvað geti valdið þessum mikla mun að öðru leyti en því að þeir útiloka ekki að það geti tengst því að löngu trukkarnir eru mun oftar á betri, breiðari og beinni vegum en þeir stuttu auk þess sem bestu bílstjórarnir séu frekar valdir til að stjórna lengstu bílunum.

Í flestum Evrópuríkjum er lögbundin hámarkslengd vöruflutningabíla 18,75 metrar. Svíþjóð hefur lengi verið sér á parti því að þar mega trukkarnir vera allt að 25,25 metra langir. Í Kanada, Bandaríkjunum, Ástralíu og Brasilíu  mega vöruflutningabílarnir vera ennþá lengri en það þýðir lægri kostnað, minni orkunotkun og minni CO2 útblástur á hverja flutningseiningu.

Svíar vilja greinilega lengja flutningabílana enn meir og eru um þessar mundir að prófa bíla sem eru yfir 30 metrar að lengd og  vega full-hlaðnir allt að 90 tonn. Auk þess að prófa þessa risa-flutningabíla reyna menn að meta áhrif þeirra á umferðaröryggið.