Langmesti samdráttur á Hringvegi í október

Umferðin í nýliðnum októbermánuði á Hringveginum dróst sama um 21,5 prósent miðað við sama mánuð fyrir ári síðan. Þetta er langmesti samdráttur á Hringvegi í október og þrefalt meiri en fyrr samdráttarmet sem var á milli áranna 2011 og 2012. Í tölum frá Vegagerðinni kemur fram að útlit er fyrir að í ár verði um 13 prósenta samdráttur í umferðinni á Hringveginum eða tvöfalt meiri en áður hefur mælst. 

Umferð yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi dróst saman um 21,5% í nýliðnum október borið saman við sama mánuð á síðasta ári.  Mest dróst umferðin saman um lykilteljara á Norðurlandi, eða um tæp 38% en minnst um teljara á og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um tæp 13%.  Þetta er langstærsti samdráttur í umferð yfir þessi 16 snið sem hefur mælst. 

Mesti samdráttur, milli október mánaða fram til þessa, var milli áranna 2011 og 2010 en þá varð 6,7% samdráttur.  Þetta er því rúmlega þrisvar sinnum meiri samdráttur.  Leita þarf aftur til ársins 2015 til að finna minni umferð í október mánuði.

Af einstaka stöðum þá dróst umferð mest saman um mælisnið á Mýrdalssandi eða um rúmlega 76%, sem er nýtt met í samdrætti fyrir einstaka talningastaði.

Áætlað er að umferð muni dragast saman í kringum 55% um Mýrdalssand fyrir árið í heild, sem yrði mesti samdráttur fyrir einstaka stað, af þessum 16 lykilteljurum á Hringvegi.

Umferð eftir vikudögum

Frá áramótum hefur mest verið ekið á föstudögum en minnst er ekið á laugardögum. Fram til þessa hefur það verið nánast regla að minnst hefur verið ekið á þriðjudögum en mest á föstudögum.  Þannig að nú lítur út fyrir að ástæður þess hvenær minnst er ekið, hafi breyst og e.t.v. má kenna Covid-faraldri um.

Eins og nærri má geta hefur umferð dregist sama í öllum vikudögum og þá mest á sunnudögum eða um tæp 18% en minnst hefur umferð dregist saman á þriðjudögum.