Las Vegas er mesta bílaþjófnaðaborg Bandaríkjanna

http://www.fib.is/myndir/Carwatch.jpg

Las Vegas, spilaborgin mikla í Nevadaeyðimörkinni er sú borg í Bandaríkjunum þar sem flestum bílum er stolið á hverja 100 þúsund íbúa. Þetta kemur fram í tölum sem bandarísk rannsóknastofnun í tryggingaglæpum gefur út.

Bílaþjófnaðir hafa lengi verið flestir í Bandaríkjunum í borgum Vesturríkja Bandaríkjanna og undanfarin þrjú ár hefur borgin Modesto í Kaliforníu átt þetta vafasama Bandaríkjamet þar til nú er Las Vegas skýst fram úr.

Lengstum hefur verið sáralítill munur á milli Modesto og Las Vegas en á síðasta ári skildu leiðir með afgerandi hætti. Í Modesto greip lögregla til hertra og gerbreyttra vinnubragða í glímunni við bílaþjófana og árangurinn lét ekki á sér standa, bílaþjófnuðunum fækkaði um 30% milli áranna 2004 og 2005 og Modesto féll úr fyrsta niður í fimmta sæti. Þjófnuðunum fækkaði vissulega líka í Las Vegas eins og í flestum öðrum borgum Bandaríkjanna en mun minna.

Aðgerðir lögreglunnar í Modesto fólust einkum í því að komið var fyrir sérstökum „tálbeitubílum“ hingað og þangað um borgina. Bílarnir voru skildir eftir þannig að fremur auðvelt yrði fyrir þjálfaða þjófa að stela þeim. Í bílunum er svo komið fyrir bæði mynd- og hljóðupptökutækjum og staðsetningartækjum þannig að auðveldara yrði að standa bílþjófana að verki. Auk þessara tækja var komið fyrir læsingabúnaði í bílunum sem lögreglumenn geta stjórnað með fjarstýringu og hreinlega læst þjófana inni svo þeir geti ekki forðað sér á hlaupum.

Auk þessara tæknilausna voru tryggingafjárhæðir sem krafist er til að fá handtekna bílþjófa lausa sem gómaðir eru í fyrsta sinn hækkaðar verulega og refsingar fyrir endurtekin bílaþjófnaðarbrot hertar umtalsvert. 

Að lokum er hér listi yfir tíu mestu bílaþjófnaðaborgir Bandaríkjanna:

1.   Las Vegas/Paradise, Nev.
2.   Stockton, Calif
3.   Visalia/Porterville, Calif.
4.   Phoenix/Mesa/Scottsdale, Ariz.
5.   Modesto, Calif.
6.   Seattle/Tacoma/Bellevue, Wash.
7.   Sacramento/Arden-Arcade/Roseville, Calif.
8.   Fresno, Calif.
9.   Yakima, Wash.
10. Tucson, Ariz.