Láta olíufélögin kaupendur bensíns borga niður samkeppni í sölu á dísilolíu?

The image “http://www.fib.is/myndir/bensin.gif” cannot be displayed, because it contains errors.
FÍB hefur tekið saman heimsmarkaðsverð á bifreiðaeldsneyti, bensíni og dísilolíu, frá janúar 2005 til dagsins í dag og uppfært með vísitölu neysluverðs í maí 2006. Það sem af er þessu ári hefur innkaupsverð hvers bensínlítra verið  um 6 krónum hærra en það var allt árið í fyrra að meðaltali. En sé það sem liðið er af árinu borið saman við sama tímabil í fyrra  kemur í ljós að innkaupsverð bensínlítrans er 9 krónum hærra nú. Þetta skýrist á meðfylgjandi grafi og töflu hér fyrir neðan.

Eldsneytisverð á heimsmarkaði, eldsneytisskattar og álagning olíufélaganna er grunnur verðs á bílaeldsneyti til neytenda.  Ljóst er að álagning olíufélaganna af hverjum lítra af bensíni hefur hækkað á milli ára.  Neytendur hafa borgað fyrstu 5 mánuðina í ár tæplega 2 krónum meira í álagningu með virðisaukaskatti á lítra samanborið við fyrri helming ársins 2005.  Sé álagningin nú hins vegar borin saman við meðalálagningu alls síðasta árs er munurinn tæp ein króna á lítra.

Dísilolían hefur einnig hækkað drjúgt á heimsmarkaði. Innkaupsverð á lítra í dag er ríflega 5 krónum hærra en það var að meðaltali allt síðasta ár. Sé það sem liðið er af yfirstandandi ári borið saman við sama tímabíl í fyrra er dísilolían nú 8 krónum dýrari hver lítri en í fyrra.  Kaupendur dísilolíu finna hinsvegar minna fyrir hækkun olíunnar á heimsmarkaði því að önnur og ánægjulegri þróun hefur orðið hvað varðar álagningu olíufélaganna á dísilolíuna en bensínið. Hvað varðar álagningu félaganna á dísilolíuna má glöggt greina áhrif aukinnar samkeppni. Það er greinilegt að Atlantsolía hefur haft jákvæð áhrif á samkeppnisumhverfi í dísilolíusölu sem komið hefur neytendum til góða því að það sem af er þessu ári er álagning á dísilolíulítrann ríflega þremur krónum lægri en meðalálagning síðasta árs var. Sé einungis litið til álagningar olíufélaganna á dísilolíuna frá ársbyrjun 2005 til 1. júlí á sama ári og það tímabil borið saman við það sem liðið er af þessu ári kemur í ljós að álagningin er hvorki meira né minna en fimm krónum lægri nú.

Talsmenn FÍB bentu á þessar staðreyndir í fjölmiðlum nýlega. Forstjóri Olíufélagsins, Hermann Guðmundsson brást þannig við að vísa þeim frá sem rakalausum. Hann sagði í samtali við fréttamanna ríkisútvarpsins að samkvæmt bókum fyrirtækisins væri enginn munur á álagningu eftir eldsneytistegundum. Olíufélögin hefðu öll verið að reyna að halda í við sig varðandi hækkanir og borgað með framlegðinni í eldsneytissölu í aprílmánuði sem ekki gæti talist eðlilegt ástand til lengdar. Verðið í dag væri hárrétt miðað við þær framlegðarkröfur sem gerðar væru í þessum rekstri. Loks neitaði Hermann því að meiri álagning væri á bensíni en dísilolíu eins og FÍB hefði haldið fram. Slíks sjáist engin merki í uppgjöri Olíufélagsins.

Vera kann að þessi túlkun forstjórans eigi sínar skýringar í því að hann er tiltölulega nýtekinn við starfi sínu. Hann hefur því hugsanlega ekki haft tíma til að fara gaumgæfilega í gegn um bókhaldsgögn fyrirtækisins, og það verður að telja hæpið að þótt Olíufélagið teljist myndarlegt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða að það njóti verulega betri innkaupskjara á dísilolíu en almennt bjóðast á heimsmarkaði með olíuvörur.  Hermann tók að sér í fréttinni að vera talsmaður allra olíufélaga á Íslandi  varðandi álagningu.  Ætla verður að forsendur séu mismunandi í rekstri hvers félags fyrir sig enda ljóst að ekki þurfa öll félögin að standa skil á tugmilljarða uppkaupum á sama tíma og gengi íslensku krónunnar hefur hrapað gagnvart erlendum gjaldmiðlum.

Varðandi álagningarmuninn á bensín- og dísilolíu er það athyglisvert að umtalsvert meira magn er selt af bensíni en dísilolíu á bifreiðar og tæki. Gróflega má gera ráð fyrir því að um 200 milljónir lítra seljist árlega af bensíni en 120 milljónir af dísilolíu þannig að ekki er mögulegt að skýra álagningarmuninn með því að meira seljist af dísilolíu en bensíni.

Annað er einnig athyglisvert að við upptöku olíugjalds héldu forsvarsmenn olíudreifingarfyrirtækjanna Olíudreifingar hf og Skeljungs hf því fram að kostnaður við dreifingu á dísilolíu myndi aukast um allt að tvær krónur á lítra vegna litunar og tvöfalds geymslu- og dreifikerfis.  Þá er það sömuleiðis umhugsunarvert að hluti af sölu á dísilolíu fer fram með mun dýrari hætti en stærstur hluti bensínsölunnar. Bensínsalan fer fram á bensínafgreiðslustöðvum en varðandi dísilolíuna er verið að senda tankbíla í miklum mæli með dísilolíu út um holt og móa til að dæla á heimatanka, vörubíla, vinnuvélar og –tæki hjá viðskiptavinum. Þrátt fyrir þetta er álagning félaganna á dísilolíuna umtalsvert minni en á bensínið.

En þannig hefur þetta ekki alltaf verið: Á fyrri hluta síðasta árs áður en olíugjald var tekið upp, var álagningin á dísilolíuna ríflega tveimur krónum hærra en af hverjum bensínlítra. Samanburður á álagningu olíufélaganna á bensín og dísilolíu sýnir að fyrstu sex mánuði ársins 2005 skömmtuðu olíufélögin sér um tveimur krónum hærri álagningu af dísilolíulítra en bensínlítra. Þetta hefur nú algerlega snúist við.

Það er jákvætt að aukin samkeppni skili dísilolíukaupendum betri verðum en það getur varðað við samkeppnislög að kosta samkeppni um einn hóp viðskiptavina með því að auka álag á aðra hópa.  Viðskiptaaðilum er mismunað og samkeppnisstaða bensínkaupenda er veikt.
 
Í útreikningunum FÍB er gengið út frá verði á bensíni og dísilolíu á Rotterdam-markaði, gengi Bandaríkjadollars gagnvart krónunni, sjálfsafgreiðsluverði á þjónustustöð og hlut olíufélags með VSK. 

Innkaupsverð og hlutur olíufélaga af bensíni og dísilolíu frá janúar 2005 til maí 2006, uppfært með vísitölu neysluverðs (VNV).

http://www.fib.is/myndir/Eldsn-graf-mai2005.jpg

http://www.fib.is/myndir/Eldsn.tafla-29.mai06.jpg