Lausagöngu ber að banna

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir það vekja furðu og vonbrigði að þrátt fyrir stórbreytta umferð og búskap í landinu skulum við enn verða með sérreglur um þau svæði landsins þar sem sveitastjórnir ákveða að setja ekki bann við lausagöngu búfjár. Þetta kemur fram í viðtali við Runólf í Morgunblaðinu um helgina.

Þarna er Runólfur Ólafsson að vísa til dóms sem féll í Landsrétti um að bifreiðaeigandi bæri ábyrgð á tjóni sem varð þegar hestar voru utan girðingar og fóru í veg fyrir bíl sem hann ók. Í þessu umrædda tilviki varð mikið tjón á bílnum en ekki var slys á fólki. Eitt hross drapst í þessu óhappi. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur margsinnis tjáð sig um sambærileg mál þegar félagið skilaði séráliti í umsögn um vegalög sem samþykkt voru 2007.

Í viðtalinu við Morgunblaðið segir Runólfur ennfremur þetta vera mjög viðamikið öryggismál og þetta sé í þessum farvegi gagnvart almenningi. Hann leggur á það áherslu að mikilvægt sé að algjört bann ríki við lausagöngu búfjár við þjóðvegi og að það sé ekki á færi sveitarfélaga að ákveða hvaða háttur sé hafður á á hverjum stað. Geta má þess að Skagafjörður er eitt fárra sveitarfélaga þar sem þessu hefur ekki verð breytt fram að þessu.

Í lýsingu á málsatvikum kemur fram að ökumaður hafi ekki haft tök á því að bregðast við aðstæðum og að hann hafi ekið á löglegum hraða en myrkur var þegar slysið varð. Runólfur bendir á að hræðileg slys hafi orðið við sambærilegar aðstæður. Mikilvægt sé að samgönguráðherra og ráðherra landbúnaðarmála geri breytingar á vegalögum þess efnis að lausaganga verði alfarið bönnuð og á ábyrgð búhaldara. Eins sé mikilvægt að tryggja gagnsæi löggjafarinnar. Sveitarfélög landsins séu mörg og ótækt að leggja það á vegfarendur að þekkja þessi málefni þegar þeir eiga leið um einstök sveitarfélög þar sem lausaganga er leyfð.

Lausaganga búfjár á vegum er víðtækt vandamál hér á landi sem haft hefur í för með sér slys og slysahættu og ógnað öryggi vegfarenda. Aukin umferð, þ.á.m. umferð ferðamanna og aukinn umferðarhraði samfara betri vegum knýr á um að gripið verði til markvissra aðgerða til lausnar vandans.