Leaf heimsins grænasti bíllinn á árinu

Nissan Leaf var á dögunum „Heimsins grænasti bíllinn á árinu“ (the World Green Car 2018) á alþjóðlegu bílasýningunni í New York. Verðlaun World Car Awards eru ein þau eftirsóttustu sem veitt eru í bílgreininni á heimsvísu, en Leaf er jafnframt fyrsti bíllinn sem hlotið hefur verðlaunin í þessum flokki.

 Leaf, sem er mest seldi 100% rafbíllinn á markaðnum, er tákngervingur Nissan í grænni samgöngustefnu fyrirtækisins  sem hefur að markmiði að draga sem mest úr neikvæðum umhverfisáhrifum bifreiða.

Leaf kom fyrst á markað árið 2010 og var hann ári síðar kjörinn Heimsbíll ársins (World Car of the Year 2011). Hann var jafnframt fyrsti rafbíllinn til að hljóta aðalverðlaun World Green Awards frá upphafi verðlaunanna. Leaf hefur selst í yfir 300 þúsund eintökum um allan heim frá því að hann kom á markað og hefur bílunum samtals verið ekið yfir þrjá milljarða kílómetra.

 Auk verulegra útlitsbreytinga hefur Nissan Leaf stækkað frá fyrri kynslóð og er hann nú bæði lengri og breiðari en áður. Bíllinn hefur einnig fengið öflugri rafmótor og rafhlöðu. Þannig er nýr Leaf nú 150 hestöfl, sem er 41 hestafls aukning frá fyrri kynslóð. Það skilar honum 3,6 sekúndna meiri snerpu en forverinn hafði og er nýi bíllinn nú aðeins tæpar 8 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km/klst. Einnig hefur drægni rafhlöðunnar aukist um 128 km; fer úr 250 km í 378 km við bestu mögulegu aðstæður samkvæmt NEDC.

Mikil eftirspurn er eftir nýjustu kynslóð Nissan Leaf bílanna um alla Evrópu og ekki síður hér á landi. Bíllinn var frumsýndur hjá BL um síðustu helgi og gengur sala á bílunum mjög vel.