Leiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur opnuð rafbílum

ON hefur í samstarfi við N1 og fleiri aðila bætt við þremur hlöðum fyrir rafbíla á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur. „Leiðin er orðin fær,“ segir Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri ON.

Í blíðunni þar nyrðra tók Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra á móti ferðalöngunum. Ráðherrann óskaði Orku náttúrunnar til hamingju með áfangann og sagði orkuskipti í samgöngum vera lykilþátt í áætlunum stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. ON hlaut einmitt hæstan styrk úr Orkusjóði um áramótin til uppbyggingar innviða fyrir orkuskipti í samgöngum.

Hlöðurnar eru á þjónustustöðvum N1 í Staðarskála í Hrútafirði og á Blönduósi og sú þriðja var sett upp við tengivirki RARIK og Landsnets rétt við Varmahlíð til bráðabirgða. Áður var komin hlaða á þjónustustöð N1 í Borgarnesi. Hraðhleðslur eru í öllum hlöðunum og í þeim verða einnig hefðbundnar hleðslur. Bjarni Már segir að samstarfssamningur ON við N1, sem gerður var í vetur, hafi nú þegar sannað gildi með því að tekist hafi að brúa þennan fjölfarna hluta hringvegarins fyrir sumarið.

„N1 vill bjóða viðskiptavinum þá orkugjafa sem þeir þurfa á þjónustustöðvum okkar og þetta er einn áfangi á þeirri leið. Nú geta rafbílaeigendur slakað á meðan þeir hlaða bílinn og komist norður og suður eftir hentugleika,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1.

Hringurinn opnaður rafbílum

Orka náttúrunnar hefur lýst þeim áformum að varða allan hringveginn hlöðum fyrir rafbíla á næstu misserum. Í erindi sínu á þingi Samorku varpar Bjarni Már upp korti af áformuðum staðsetningum. „Þetta veltur allt á því að ná góðu samstarfi við heimafólk til að finna stöðvunum hentugan stað,“ segir Bjarni Már og bætir við að samstarfið við RARIK, sem sér um dreifingu rafmagns víðast hvar á landsbyggðinni, hafi verið framúrskarandi gott.

„Í Varmahlíð þurftum við líka á aðkomu Landsnets að halda og hversu skjótt og vel var brugðist við finnst mér sýna að orku- og veitufyrirtækin eru mjög samhent í orkuskiptum í samgöngum, sem er eitt okkar stærsta tækifæri í loftslagsmálum,“ bætir Bjarni Már við.

Hlöður ON eru nú 16 talsins. Þær fyrstu voru settar upp í Reykjavík í samstarfi við B&L og Nissan Europe á árinu 2014. Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt síðan. Þær spanna nú höfuðborgarsvæðið, Suðurnesin og Selfoss, fimm varða leiðina til Akureyrar þar sem ON setti upp tvær hlöður fyrir ári. Allar bjóða upp á hraðhleðslu.