Lexus/Toyota efst á gæðalista Consumer Report

Lexus og Toyota eru eins og í fyrra efst á árlegum áreiðanleikalista Consumer Report neytendastofnunarinnar bandarísku.

Þótt rannsóknin miðist fyrst og fremst við bíla á bandarískum markaði er hún vissulega gagnleg fyrir evrópska og þá líka íslenska neytendur því að margir þeirra bíla sem rannsóknin nær til eru á markaði hér. Dæmi um það eru Audi Q2, Q3, Q7, Lexus CT 200h, Lexus GS, Mercedes Benz GLC, Toyota Prius og nú einnig Fiat, Jeep, Chrysler og Ram. En eitt er þó víst að þegar Consumer Report talar, þá er ástæða fyrir bæði neytendur og bílaframleiðendur að hlusta.

Skýrslan var birt á þriðjudag og er að vanda yfirgripsmikil og reyndar víðtækari en nokkru sinni áður. Hún nær núna til allt að 16 ára gamalla bíla (áður 10 ára), bíla af árgerðunum 2000 til 2017. Ítarlegir spurningalistar eru sendir til bíleigenda og með því að hafa allt að 16 ára gamla bíla með í rannsókninni fæst marktæk yfirsýn yfir endingu og áreiðanleika einstakra tegunda og gerða og hvers má vænta af þeim. Eins og vænta má eru niðurstöður fyrir árgerð 2017 ekki miklar ennþá, enda er sú árgerð rétt að byrja að tínast inn á markaðinn þessa dagana.

Spurningarnar sem bíleigendum eru sendar ná til 17 meginatriða í rekstri ökutækja. Þær geta til dæmis snúið að ábyrgð framleiðenda, sölu- og þjónustuaðila bílanna, þær geta verið um vandamál með fjórhjóladrif, gírkassa, tölvukerfi, innréttingu og búnað sem ekki virkar eða virkar ekki rétt, um innréttingar, læsingar o.s.frv.

Til þess að bíltegund og -gerð nái upp í efsta sæti könnunarinnar verða bílarnir að vera nánast gallalausir. Það hefur Lexus sýnt sig í að vera ár eftir ár og enn nú árið 2016. Það ætti því vart að koma á óvart að ,,móðurmerkið“ Toyota fylgi þétt á eftir. Það kemur hins vegar á óvart hversu Buick sækir í sig veðrið. Buick hefur færst upp um sjö sæti frá því í könnun síðasta árs og hefur ýtt Audi úr þriðja sætinu niður í það fjórða.

Verra gengur það með Fiat 500L, Ford Fiesta, Ford Focus, Chevrolet Tahoe, Ram 2500, Jeep Renegade og Tesla Model X. Allir fá lága einkunn hjá Consumer Report eins og sjá má að þessum lista.

En fyrir Volkswagen er könnunin áfall. Tegundin hrapar niður um heil 13 sæti og er kominn í félagsskap bíla sem teljast frekar óáreiðanlegir. Aðrar tegundir í þeim hópi eru Volvo (!) og Tesla. Jafnframt eru tvær gerðir VW bíla komnar á lista yfir þá bíla sem ekki er mælt með að fólk kaupi. Meginástæða þess að Tesla er á þeim lista er rakin til Tesla Model X sem telst vera vandamálabíll, ekki síst vegna vandræða sem fylgja dyrunum sem opnast líkt og arnarvængir. Loks fá Fiat og Ram nánast kjaftshögg hjá Consumer Report og eru einu tegundirnar í könnuninni sem merktar eru með rauðu, sem er ábending til neytenda um að forðast þessar tegundir.

Consumer Report 2016

Tegundir

Stig

Mjög áreiðanlegar teg.

 

1. Lexus (1)

86

2. Toyota (2)

78

3. Buick (7)

75

4. Audi (3)

71

5. Kia (6)

69

6. Mazda (4)

68

7. Hyundai (9)

66

8. Infiniti (24)

62

Áreiðanlegar teg.

 

9. BMW (11)

57

10. Honda (8)

57

11. Subaru (5)

54

12. Acura (18)

53

13. Nissan (15)

52

14. Mini (10)

47

15. Chevrolet (20)

45

16. Porsche (14)

45

17. Mercedes-Benz (21)

44

18. Ford (17)

44

Fremur óáreiðanlegar teg.

 

19. Volvo (12)

39

20. Lincoln (16)

33

21. Cadillac (25)

32

22. Volkswagen (13)

30

23. Jeep (27)

30

24. GMC (19)

29

25. Tesla (ny)

28

26. Dodge (23)

28

27. Chrysler (22)

26

28. Fiat (nýr á lista)

17

29. Ram (26)

16