Líkhjól í stað líkbíls

Kaupmannahöfn er mikil reiðhjólaborg og óvíða betra og öruggara en þar að fara ferða sinna hjólandi. Talið er að um það bil helmingur íbúa borgarinnar noti hjólhesta sína daglega að meðaltali og að hjólið sé aðal farartæki fólks til og frá vinnu og þegar þarf að skjótast milli húsa eða borgarhverfa. Fátt hindrar hjólanotkunina nema einna helst fárviðri og flóð. Borgarbúar kunna að meta reiðhjólin sín og nýta þau nánast alla ævina og reyndar aðeins lengur sumir: Það er nefnilega svo að útfararÞjónusta ein í borginni hefur eignast sérstakt reiðhjól til flytja látna hinsta hjólatúrinn frá útfararstað til grafar.  

Sille Kongstad rekur útfararþjónustu þá í Kaupmannahöfn sem tekið hefur líkhjólið í notkun. Hún segir við Der Spiegel að útfarir eigi helst að vera sérstök upplifun fyrir viðstadda og  minna eftirlifendur á hið góða, sérstaka og minnisverða í fari hins látna. Flutningur kistunnar að gröf sé talsvert mikilvægur hluti útfarar en líkbílar nútímans séu þannig útlits að þar ráði tilbreytingarleysi og hversdagsgrámi ríkjum og það vilji hún brjóta upp. Það sé aukin heldur ekki beint viðeigandi að flytja í sérbyggðum Mercedes E þá manneskju hinsta spölinn, sem allt sitt líf elskaði sitt reiðhjól og hjólreiðar yfirleitt. Slíkt lýsi ekki sérlega mikilli virðingu við hinn látna og lífssýn hans.

Sille segist lengi hafa hugsað um þetta, velt fyrir sér ýmsum hugdettum og tekið fjölda mynda af gömlum líkbílum og líkvögnum og fékk þá hugmyndina að líkhjólinu góða. Þvínæst hafi hún snúið sér til reiðhjólasmiðs sem svo hannaði og smíðaði  líkhjólið. Hún segist hafa lagt áherslu á að hönnunin yrði bæði traust og virðuleg og það hafi tekist vel. „Hjólið er að sjálfsögðu svart að lit og yfir kistupalli hjólsins sé bogamyndað þak sem hvílir á fjórum súlum með gylltum toppum. Þakið skýlir kistunni fyrir regni og sól,“ segir Sille sem sjálf situr á hjólinu góða á myndinni. Hún segir að hjólið minni í útliti dálítið á hestvagna til líkkistuflutninga frá 18. og 19. öld.