Líklegt samstarf á milli Volvo og Mercedes Benz

Það er dýrt að þróa og framleiða nýtnari brunahreyfla í bíla.  Til þess að mæta því hafa bílaframleiðendur aukið samstarf sín á milli um vélaframleiðslu. Innan fárra ára gætu sömu vélar knúið Volvo og Mercedes Benz bíla. 

Kínverska fyrirtækið Geely hefur eignast 10% hlut í Daimler framleiðanda Mercedes Benz.  Fyrir á Geely m.a. sænsku bílaframleiðendurnar Volvo Car Group og Proton, kínversk-sænska Lynk & Co og yfir 50% í breska sportbílaframleiðandanum Lotus Cars.  Geely rekur öfluga bílaframleiðslu í Kína undir eigin merki, Geely Auto.

Automotive News Europe segir að heimildarmenn innan Daimler og Volvo hafi staðfest að fyrirtækin hafi komist nær samkomulagi um sameiginlega þróun nýrra brunahreyfla auk þess sem  unnið sé að frekara samstarfi á öðrum sviðum.

Geely tilkynnti í október sl. að Volvo myndi bera ábyrgð á Þróun bílvéla innan samstæðunnar frá og með vormánuðum í ár.  Af því leiðir að samstarfið um vélaþróunina verður á milli Daimler og Volvo.  Inn í framtíðina hafa einnig verið uppi hugmyndir um að taka upp frekara samstarf um þróun aflrása fyrir rafbíla.

Geely og Daimler höfðu áður gengið frá samningi varðandi samstarf um byggingu næstu kynslóðar rafknúinna Smart-bíla í Kína.  Samstæðurnar skrifuðu einnig undir samning um rekstur eðalvagnaþjónustu í Kína.