Lin dekk spilla umhverfinu

http://www.fib.is/myndir/Pression6.jpg

Þrír af hverjum tíu bílum í umferðinni í Danmörku eru með með svo lítinn loftþrýsting í dekkjunum að eldsneytiseyðslan er allt að sex prósentum meiri en ef loftþrýstingurinn væri réttur og í samræmi við fyrirmæli framleiðanda bílsins. Þetta þýðir það að 86 þúsund tonn af koldíoxíði sleppa út í andrúmsloftið árlega að óþörfu – bara af því að það er of lint í dekkjunum.

Nú stendur yfir talsvert viðamikil rannsókn á þessu í Kaupmannahöfn. Það er Michelin sem stendur fyrir henni. Yfir 500 bílaþjónustuaðilar og verkstæði  á Kaupmannahafnarsvæðinu mæla loft í hjólbörðum bíla sem koma til þjónustu eða viðgerða. Rannsóknin er gerð í framhaldi af lauslegri athugun sem Michelin lét gera í Kaupmannahöfn haustið 2008. Þá var mældur loftþrýstingur í hjólbörðum 236 bíla í Kaupmannahöfn. 31 prósent þeirra var með loftþrýsting sem var 0,5 loftþyngdum undir réttum þrýstingi á a.m.k. einu hjóli. Loftþrýstingur sem er 0,5 kílum á fersentimetra undir réttum þrýstingi  skilgreinir Michelin sem hættulega lágan dekkjaloftþrýsting.

Michelin telur að ástandið á dekkjunum undir bílum Kaupmannahafnarbúa vera dæmigert fyrir landið allt. Því var ákveðið að fara í umrædda herferð á Kaupmannahafnarsvæðinu einu. Samið var við yfir 500 löggilt verkstæði og bílasölu- og –þjónustustaði að mæla loftþrýsting og meta ástand hjólbarða bíla, eigendum að kostnaðarlausu frá 1. apríl fram í byrjun júní. Tilgangurinn er að útrýma ónauðsynlegum koltvísýringsútblæstri . 

Sérfræðingur í umhverfismálum sem starfar hjá Michelin í Danmörku segir við Motormagasinet að akstur á loftllitlum dekkjum valdi ónauðsynlegu álagi á andrúmsloftið og umverfið. Það ætti að vera auðvelt að vinna bug á þessu háttalagi ökumanna, ekki síst vegna þess að þeir eru jafnframt að valda sjálfum sér aukakostnaði með ónauðsynlegri eldsneytiseyðslu. Það sé umhugsunarefni að þeir sömu sem gera mikið úr því þegar bensínið hækkar eða lækkar um fimmkall leiði oft ekki hugann að því hvað þeir bruðla með eldsneytið með því að mæla ekki reglulega loftið í dekkjunum og bæta í þegar þörf gerist. En ekki bara það, heldur slitna dekkin miklu fyrr og verr þegar þrýstingurinn er rangur. Til dæmis rýrni slitþol dekkja um hvorki meir né minna en 25 prósent þegar þrýstingurinn er 20 lægri en hann á að vera. „Það tekur ekki lengri tíma að mæla loftið í dekkjunum en að fylla eldsneyti á bílinn. Samt athugum við flest loftþrýstinginn sárasjaldan,“ segir umhverfissérfræðingurinn við Motormagasinet.

En réttur loftþrýstingur er ekki bara spurning um peningaúthjöld heldur líka og ekki síst um öryggi. Þegar of lint er í dekkjunum lengist hemlunarvegalengdin og bíllinn verður verr viðráðanlegur þegar beygja þarf snögglega eða víkja undan hættu og honum hættir frekar við að fljóta upp í bleytu þegar of lint er í dekkjunum. Of lítið loft eykur líka líkur á því að það springi. Lágur þrýstingur er reyndar lang algengasta frumorsök þess að dekk springa.

Almennt séð er háskalegra að aka með of lítið loft í dekkjum en of mikið. En of mikill loftþrýstingur er líka varasamur. Aksturseiginleikar bílsins spillast, hann verður óþægilegri í akstri og rásfesta hans versnar.

Michelin hefur tekið saman nokkrar reglur um umgengni við dekkin undir bílnum þær eru þessar:

1. Athugaðu loftþrýstinginn í dekkjunum helst aðra hverja viku og aldrei sjaldnar en einu sinni í mánuði. Sérstaklega skaltu athuga dekkin ef þú ert að leggja af stað í langferð og munt aka hratt og vera með mikinn farangur í bílnum. Réttur loftþrýstingur skiptir máli fyrir öryggi þitt og þinna og fyrir endingu dekkjanna.
Loftþrýstinginn skal mæla þegar dekkin eru „köld“ (Í mesta lagi má vera búið að aka þrjá kílómetra). Gleymdu ekki varadekkinu og farðu eftir fyrirmælum framleiðanda bílsins eða dekkjanna um loftþrýstinginn.

2. Skiptu um ventil í hvert sinn sem þú skiptir út gömlum dekkjum fyrir ný. Ventillinn heldur loftinu í dekkinu. Hann slitnar fyrir áhrif miðflóttaaflsins og harðnar og sprungur myndast í honum með aldrinum.

3. Jafnvægisstilling eyðir titringi og skjálfta og kemur í veg fyrir ótímabært slit á dekkjum, hjóla-, stýris- og fjöðrunarbúnaði bílsins.  Láttu einnig athuga hjólastillingu (halla og sporun framhjólanna) af og til, sérstaklega þó ef framdekkin misslitna.