Lítil aukning umferðar á höfuðborgarsvæðinu í desember

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í nýliðnum desembermánuði jókst um 0,5 prósent sem er lítil aukning. Í heild jókst umferðin á svæðinu á árinu 2018 um 2,8 prósent og þarf að fara aftur til ársins 2012 til að finna minni aukningu umferðar á einu á ári.

Umferðin á höfuðborgarsvæðin jókst aðeins um 0,5 % milli desembermánaða 2017 og 2018, yfir þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar.  Þetta er minnsta aukning milli mánaða á árinu 2018. 1 % samdráttur mældist yfir snið á Hafnarfjarðarvegi 0,1 % aukning yfir snið á Reykjanesbrautinni en heildaraukningin virðist borin uppi af 2,3 % aukningu yfir snið á Vesturlandsvegi ofan Ártúnsbrekku.

Núna hefur umferðin í desember mánuðum aukist um 2,35 % að meðaltali frá árinu 2005. Þessi aukning nú er því langt undir meðaltalsaukningu, á umræddu tímabili.

Hlutfallsleg meðaltalsaukning milli mánaða hefur verið mest í október eða 3,15 %, frá því að þessi samantekt hófst árið 2005. 

Á höfuðborgarsvæðinu er að jafnaði mest ekið í september en minnst í janúar.

Í nýliðnum mánuði varð samdráttur mánudaga til og með miðvikudaga þar sem umferðin dróst mest saman á miðvikudögum eða um 6,0 %.  Umferðin jókst hins vegar á fimmtudögum til og með sunnudaga þar sem mesta aukningin varð á sunnudögum eða aukning sem nam 13,3 %.

Mest var ekið á föstudögum en minnst á sunnudögum.

Frá áramótum milli áranna 2017 og 2018
Umferðin í umræddum mælisniðum jókst um 2,8% milli áranna 2017 og 2018.  Leita þarf aftur til ársins 2012 til að finna minni aukningu á milli ára en þá jókst umferðin um 1,4% milli áranna 2011 og 2012.