Lítilsigld framganga tryggingafélags

Félagsmaður í FÍB, varð fyrir því óláni sl. vor að ekið var á bíl hans og hann skemmdur það mikið að Tryggingafélagið VÍS sem tryggði bíl tjónvaldsins, taldi ekki svara kostnaði að gera við skemmdu bifreiðina heldur greiða hana út.

Bíll félagsmannsins var af gerðinni Peugeot 607, árg. 2005, svipaður bílnum á myndinni. Sú upphæð sem VÍS bauðst til að greiða fyrir bílinn var hins vegar langt undir gangverði samskonar bíla. Eftir fjölda samningafunda mánuðum saman um verð á bílnum var orðið ljóst að að ljóst að tryggingafélaginu yrði ekki þokað. Því leitaði félagsmaðurinn sl. haust til FÍB sem mat málið þannig að það verð sem VÍS bauð fyrir bílinn væri allt of lágt og því ósanngjarnt. Lögfræðilegur ráðgjafi FÍB taldi því að það lægi beint við að vísa ágreiningnum til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Það er hlutlaus nefnd sem úrskurðar í ágreiningsmálum við vátryggingafélög gegn 6.000 kr. málskotsgjaldi.

Almennt tekur úrskurðarnefndin aðeins til meðferðar ágreiningsefni þar sem deilt er um bótaskyldu. Sérstaklega er hins vegar gert ráð fyrir því í samþykktum nefndarinnar að hún geti veitt álit á bótafjárhæð, enda leggist hlutaðeigandi vátryggingafélag ekki gegn slíku málskoti neytanda. Með slíku málskoti er þar með boðið upp á neytendavæna og ódýra leið fyrir báða aðila til að fá hlutlausan úrskurð um ágreining sinn. Það kom því FÍB verulega á óvart þegar félagsmaðurinn tjáði FÍB að VÍS hefði alfarið lagst gegn því að úrskurðarnefndin myndi taka þetta mál til meðferðar. Með því framferði lagði VÍS stein í götu félagsmannsins við að fá hlutlausa úrlausn málsins, enda augljóslega ekki á allra færi að ráða sér lögmann og höfða mál fyrir dómstólum í tilvikum sem þessum.

Þegar FÍB fékk umræddar upplýsingar ákvað lögfræðingur FÍB að rita VÍS erindi vegna málsins. Í framhaldi af því brást VÍS skjótt við og hafði samband við umræddan félagsmann og var nú allt í einu reiðubúið til að greiða félagsmanninum 40 prósent hærra verð fyrir bílinn en það hafði áður verið tilbúið að greiða.

Vinnubrögð tryggingafélagsins í þessu máli vekja upp ýmsar áleitnar spurningar. Í því hafði félagsmaðurinn um langt skeið átt árangurslausar viðræður við VÍS og þegar hann hugðist loks leggja málið í farveg þar sem hlutlaus úrskurðarnefnd myndi veita álit sitt á málinu lagðist VÍS gegn því án þess að haldbær rök væru fyrir því. Öll aðkoma VÍS að málinu svo mánuðum skipti virðist einungis hafa beinst að því að komast hjá því að greiða félagsmanninum þær bætur sem hann átti sannarlega rétt á. Flestir hefðu líklega löngu verið búnir að gefast upp á því stigi sem félagsmaðurinn hafði aftur samband við FÍB. Þá hafði VÍS tjáð honum að lagst yrði gegn því að úrskurðarnefndin tæki málið til meðferðar. Skjót viðbrögð FÍB í framhaldinu virðast hafa valdið VÍS hughvörfum í málinu.

 Velta má því fyrir sér hvort framangreindir starfshættir VÍS samræmist góðum viðskiptaháttum og venjum eins og 6. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi gera ráð fyrir. Þá má velta fyrir sér hversu margir bifreiðaeigendur eru hreinlega „snuðaðir“ í samskiptum sínum við VÍS ef þetta mál er einhver vísbending um þau vinnubrögð sem vátryggingafélagið stundar í málum þar sem altjón verður og greiða þarf út verðmæti bifreiða.

FÍB hyggst halda áfram að fylgjast náið með vinnubrögðum VÍS og annarra vátryggingafélaga í þessum efnum.