Ljósastaurar og vegrið standast ekki öryggisstaðla

http://www.fib.is/myndir/Euroraplogo.jpg
Ljósastaurar við vegi eins og t.d. Reykjanesbraut og Vesturlandsveg og víðar standast ekki Evrópustaðla. Þeir hafa aldrei verið árekstrarprófaðir og af árekstrum sem hafa orðið við staurana er ljóst að þeir eru hættulegir og hættulegri en hægt er að una við. Sömu sögu er að segja af vegriðum víða í vegakerfinu. Þannig eru vegrið á nýju brúnni yfir Þjórsá og vegrið Borgarfjarðarbrúarinnar þannig að hæpið er að gagnsemi þeirra sé eins og vera ber.

Nú hafa alls 2450 kílómetrar af íslenska vegakerfinu verið skoðaðir á vegum EuroRAP verkefnisins hér á landi og er úrvinnsla þeirra gagna sem safnast hafa, langt komin. EuroRAP snýst um það að meta öryggi vega og er verkefnið unnið af bifreiðaeigendafélögum í hverju Evrópulandi um sig. Hér á landi er það í forsjá FÍB og tæknistjóri þess er Ólafur Kr. Guðmundson, varaformaður FÍB.
http://www.fib.is/myndir/Thjorsarbru.jpg
Ólafur segir í samtali við fréttavef FÍB að fjölmargt hafi komið í ljós í EuroRAP vegaskoðuninni sem betur mætti og ætti að fara og ljóst sé að með þá staðla sem gilda í Evrópu um vegi og umferðaröryggi sé talsvert frjálslegar farið á Íslandi en víða annarsstaðar í álfunni. Þannig hafi komið í ljós að nýir og nýlegir ljósastaurar og staurar undir umferðarskiltum við Reykjanesbraut og Vesturlandsveg séu hættulegir. Írekað hafi komið í ljós að þeir gefa ekki eftir við árekstur eins og þeir ættu að gera. Þessir staurar séu hannaðir og smíðaðir á Íslandi. Ekki hafi verið annað vitað en þeir væru í lagi en nú hafi það sýnt sig að þeir hafi aldrei verið árekstursprófaðir.