Loftið úr dekkinu og peningarnir úr veskinu

Það getur orðið afskaplega dýrt fyrir eigendur nýjustu bíla að fá sprungið dekk viðgert. FDM í Danmörku; systurfélag FÍB hefur tekið saman yfirlit yfir þessi mál í sínu heimalandi og upphæðirnar eru ekkert smáræði og geta orðið allt að 84 þúsund ísl. krónur enda þótt ekkert nýtt dekk sé keypt. Líklegt er að þessi kostnaður geti orðið svipaður hér á landi en trúlega þó ívið lægri.

Ástæður þessa gríðarlega kostnaðar eru þessar: Inni í sérhverju af dekkjum margra nýjustu bíla eru skynjarar sem nema loftþrýstinginn. Skynjararnir eru hluti sjálfvirks kerfis sem vaktar loftþrýstinginn í dekkjunum og lætur ökumann vita ef hann fellur. Slíkt vöktunarkerfi varð lögskyldur búnaður í nýjum bílum á Evrópska efnahagssvæðinu frá og með 1. nóvember 2014. Fæstum nýjum bílum fylgir lengur varadekk, tjakkur og felgulykill. Í stað þessa er nú kominn poki sem í er  þrýstikútur með gúmmíkvoðu sem sprauta skal í sprungið dekk og loftdæla eða loftkútur til að pumpa í dekkið. Þegar svo springur þarf ökumaðurinn að dæla kvoðunni í sprungna dekkið. Hún flæðir þá um allt dekkið innanvert og storknar í gatinu (ef það er ekki þeim mun stærra). Síðan er pumpað í dekkið með lofdælunni/loftkútnum og loftið getur þá haldist í dekkinu að næsta dekkjaverkstæði til að fá þar sómasamlega dekkjaviðgerð.

Kvoðan er þannig engin endanleg viðgerð heldur bráðabirgðalausn. En þegar henni er sprautað inn í dekkið leggst hún auðvitað líka á loftþrýstingsskynjarann og gerir hann óvirkan. Því þarf að fjarlægja dekkið af felgunni og hreinsa kvoðuna innanúr því og gera síðan við það. Einnig þarf að hreinsa kvoðuna af felgunni og skynjaranum og endurforrita þrýstingsvöktunarkerfið og að lokum að kaupa nýtt kvoðuviðgerðasett. En kvoðan getur líka eyðilagt skynjarann og þá þarf að kaupa nýjan og forrita hann svo hann hann geti „talað“ við vöktunarkerfið. Í versta falli getur allt þetta umstang kostað samanlagt 84 þúsund ísl. krónur.Í eldri bílum þar sem enginn er skynjarinn kostar þetta aðeins lítið brot af því sem eigendur nýju bílanna mega gera má ráð fyrir að þurfa að greiða.

Ef varadekk, tjakkur og felgulykill er í bílnum er hægt að bregða varadekkinu undir bílinn í stað þess sprungna. Þar með losnar fólk við að þurfa að sprauta kvoðunni í sprungna dekkið og þar með við hreinsun á dekkinu, felgunni og skynjaranum og kostnaðurinn lækkar að sama skapi.

Starfsmenn FÍB aðstoðar hafa í seinni tíð orðið þess varir að margir þeir sem hafa keypt sér nýja og nýlega bíla uppgötva það fyrst þegar dekk springur á nýja bílnum að í honum er ekkert varadekk, enginn tjakkur né felgulykill og stundum ekki einu sinni kvoðuviðgerðasett. Rétt er því að minna þá á sem eru í bílahugleiðingum að ganga rækilega úr skugga um hvort þessir hlutir séu í bílnum sem verið er að kaupa. Og þegar nýr bíll er pantaður er skynsamlegt að muna eftir því að panta hann með varadekki, tjakki og felgulykli. Þessir hlutir kosta aukalega 30-50 þúsund kr. sem er sannarlega skárra en að stranda kannski í vitlausu veðri og í lífshættu á heiðum uppi út af sprungnu dekki.