Lög um bifreiðagjöld

Jónas Guðmundsson sýslumaður í Bolungarvík hefur sent Alþingi athugasemdir við frumvarp til laga á breytingum á lögum um vörugjald af ökutækjum og bifreiðagjöld. Jónas bendir þingmönnum á það að hægt sé að einfalda greinar laganna sem fjalla um innheimtu gjaldanna og innheimtuúrræði. Fr

á þessu er greint í frétt í fréttablaðinu Bæjarins besta á Ísafirði. Í fréttinni segir síðan: „Segir sýslumaður þar vera m.a. nokkur ákvæði sem vísa til fyrirkomulags sem ekki er lengur við lýði eða telja verður ekki lengur eiga við. Sem dæmi bendir hann á að hvað varðar árlega aðalskoðun að allmörg ár hefur ekki verið skylt að færa ökutæki til árlegrar skoðunar nema þau hafi náð tilteknum aldri eða aðrar sérstakar undantekningar eigi við. „Væri því líklegra réttara að tala um „lögmæta skoðun“ og þá vísað til gildandi reglna hverju sinni í stað „árleg aðalskoðun“,“ segir í bréfi Jónas Guðmundssonar sýslumanns til nefndasviðs skrifstofu Alþingis.

Í bréfinu bendir Jónas jafnframt sé ekki þörf á því að bifreiðaeigendur þurfi að færa sönnur á að þeir hafi greitt gjaldfallið bifreiðagjald þar sem að allar skoðunarstöðvar sem annast skoðanir ökutækjum eru nú búnar tölvukerfum sem tengd eru þeim hluta innheimtukerfis ríkissjóðs sem sýna stöðu bifreiðagjalda og annarra þeirra gjalda sem ökutækjaeigendum ber að greiða til ríkissjóðs af ökutækjum sínum, þ.m.t. úrvinnslugjald og vanrækslugjald.

Þá segir Jónas að þótt starfsfólki skoðunarstöðva sé ekki heimilt að veita bifreið skoðun vegna þess að bifreiðagjöld hafa ekki verið greidd er ekki vitað til að tíðkað sé að þeir fjarlægi jafnframt skráningarmerki af bifreið og afhendi lögreglu. Verður að telja slíka aðgerð ærið langsótta og í raun ekki leggjandi á starfsmenn skoðunarstöðva. „Eftir því sem best er vitað er sjaldgæft ef ekki óþekkt í seinni tíð að innheimtumenn krefjist þess að lögregla fjarlægi skráningarmerki af ökutæki vegna þess eins að bifreiðagjald hafi ekki verið greitt. Er raunar um allharkalega aðgerð að ræða ef önnur úrræði hafa ekki verið reynd áður. Getur þessi aðgerð komið afar misjafnlega niður eftir því hvar eigendur geyma ökutæki sín auk þess sem gildar ástæður geta verið fyrir því að bifreiðagjald er ekki greitt. Verður að telja alagaákvæði sem þessi gangi gegn sjónarmiðum um meðalhóf. Sýnist því flest mæla með því að framangreindar skyldur skoðunarmanna og lögreglu verði einfaldlega numdar úr lögum,“ segir í bréfinu.

Jónas leggur ennfremur til að bifreiðagjöld njóti fremur lögveðréttar í ökutæki en lögtaksréttar hjá skráðum eiganda. „Lögveð í ökutæki í stað eða það sem e.t.v. væri enn tryggara til viðbótar rétti til lögtaks (fjárnáms) hefði m.a. í för með sér að heimilt væri á grundvelli nauðungarsölubeiðni, sem árituð væri af sýslumanni um heimild til vörslutöku, að fela aðila sem annast vörslusviptingar að hafa upp á ökutækinu og taka það úr umráðum gerðarþola, og færa á uppboðsstað eða annan stað til varðveislu fram að uppboði. Verður að telja slíka framkvæmd að mörgu leyti eðlilegri og væntanlega skilvirkari heldur en að fela oft störfum hlaðinni og fjársveltri lögreglu það hlutverk að fjarlægja skráningarmerki ökutækis.“

Að lokum nefnir Jónas þann möguleika að einn aðili á landsvísu annist innheimtuna ef fallist verður á að krafan njóti lögveðs í ökutæki. „Má t.d. nefna að hjá embætti undirritaðs hefur safnast nokkur reynsla og þekking í innheimtu vanrækslugjalds af ökutækjum á landsvísu, sem njóta lögveðsréttar eins og áður hefur komið fram. Kynni að vera hagkvæmt að beita innheimtuúrræðum vegna allra gjaldanna samtímis eftir því sem við á í stað þess t.d. að margir aðilar séu að óska nauðungarsölu, vörslutöku o.s. frv. á ökutæki sem stundum síðar kemur í ljós að eru jafnvel ekki til þótt þau séu skráð í ökutækjaskrá. Kynni þetta verkefni að geta nýst vel til að byggja upp öflugri sýslumannsembætti t.d. á Vestfjörðum, með sem fjölbreyttust verkefni við þá fækkun og stækkun sýslumannsembætta sem hugmyndir eru um.“