Lögregla býður upp gleymdan Ferrari

Í fyrravor var rándýrum Ferrari Enzo lagt á bílastæði í Dubai. Bíllinn stóð þar í meir en 20 mánuði og safnaði á sig sektarmiðum þar til lögreglan tók hann í sína vörslu. Allan þann tíma sem liðinn er frá því að fyrsti sektarmiðinn var settur á bílinn og þar til nú, rúmlega ári síðar, hefur enginn komið að vitja hans og enginn hefur gefið sig fram við lögreglu út af horfnum Ferrari Enzo. Nú hefur lögreglan sett bílinn á óskilamunauppboð og verður hann boðinn upp í dag.

Í maí í fyrra tóku fréttir að birtast í Netfjölmiðlum um allan heim um yfirgefna Ferraribílinn, enda þótti flestum það með miklum ólíkindum að einhver gleymi og týni slíkum grip. En nú er það komið í ljós að það er einmitt málið. Eigandinn, hver sem hann er, hefur týnt þessum bíl gersamlega því hann hefur aldrei gefið sig fram, og í dag verður bíllinn boðinn upp.

Fyrsta fréttin um gleymda Ferraribílinn birtist á erlendum netmiðli í maí í fyrra. Í fréttinni var greint frá því að einhversstaðar á bílastæði í Dubai stæði yfirgefinn Ferrari Enzo, einn af 399 eins bílum og að matsverð hans væri um 132 milljónir ísl. kr. Fréttin þótti í fyrstunni með miklum ólíkindum þótt síðar kæmi í ljós að hún var dagsönn.

Hið breska Daily Mail hefur kafað ofaní málið og fundið út að yfirgefni Ferrari Enzo bíllinn var í eigu bresks ríkisborgara sem einhverra hluta vegna hefur ekki lagt í að leysa bílinn út með því að greiða þær sektir sem höfðu hlaðist á hann þá 20 mánuði sem hann stóð „gleymdur“ á stæðinu í Dubai. En hvort sem svona liggur í málinu eða ekki, þá þykir það ljóst að lögreglan muni fá fá miklu meir fyrir bílinn á uppboðinu í dag en sem nemur sektargreiðslunum.

En Enzo bíllinn er ekki sá eini sem boðinn verður upp í dag í Dubai: Auk hans verða 23 aðrir gleymdir lúxusbílar boðnir upp. Þeirra á meðal eru þrír Ferraribílar, Porsche, Corvette og Range Rover.