Lögreglan frestar sektum vegna nagladekkjanotkunar

Veðrið síðustu daga hefur ekki gefið tilefni til að bílar almennt séu komnir á sumardekk. Af þeim sökum hafa margir bifreiðaeigendur velt því fyrir sér hvort lögreglan sé byrjuð að sekta ökumenn fyrir að vera á negldum dekkjum á höfuðborgarsvæðinu.

Vegna veðurs undanfarið og eins í spám næstu daga hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ekki sektað ökumenn fyrir að vera ennþá á nagladekkjum. Ökumenn mega vera á nagladekkjum frá 1. nóvember til 14. apríl ár hvert. Því er runnið upp það tímabil þar sem ekki má vera á nagladekkjum samkvæmt reglum en lögreglan segir marga hafa spurt byrjað sé að sekta fyrir notkun þeirra.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að vegna veðurs sé það ekki gert að svo stöddu en lögreglan mun tilkynna það með nokkurra daga fyrirvara áður en það byrjar.

Á Facebook-síðu lögreglunnar kemur fram að ökumenn eru beðnir um að  fylgjast vel með veðri og skipta af nagladekkjum strax og mögulegt er. Eðlilega eru aðstæður fólks misjafnar, sumir hyggja ekki á ferðalög og geta því skipt fyrr, en aðrir eru mikið á leið yfir heiðar og þurfa því að vera lengur á negldum börðum,“ segir í Facebook-færslu lögreglunnar um málið.