Lögreglunni hafa borist kærur vegna Procar-málsins

Frá því að fréttaskýringaþátturinn Kveikur upplýsti um umfangsmikil og skipulögð svik bílaleigunnar Procar við sölu notaðra bíla, þar sem kílómetrastaða þeirra var færð niður, hafa þeir sem eiga gamla bíla frá leigunni reynt að sannreyna hvort átt hafi verið við bílana. Fram kom í öðrum fréttaskýringaþætti Kveiks á RÚV í gærkvöldi um málið að erfitt gæti reynst að fá einhvern botn í málið. Hópur eigenda gamalla Procar-bíla hefur fengið lögmann til að gæta hagsmuna sinna.  

Í þættinum í gærkvöldi kom fram að að bílaumboðin geta eftir því sem næst verður komist ekki geta sannreynt raunverulegan kílómetrafjölda en fyrir liggi að hundruð bíla hafa verið trekktir. Síðustu vikur hafa fjölmargir leitað til lögmanna bílaleigunnar á Draupni lögmannsstofu í von um að fá svör um hvort átt hafi verið við bílana þeirra. Einhverjir hafa þegar fengið svör á meðan aðrir bíða.

Lögreglan hefur ekki veitt neinar upplýsingar um stöðu rannsóknar. Kveikur hefur hins vegar upplýsingar um að lögreglunni hafi borist kærur vegna Procar-málsins, og, að fleiri séu á leiðinni. Lögmaður hópur eigenda gamalla Procar-bíla sagði í þættinum forsendur fyrir því að kyrrsetja eignir bílaleigunnar.  Lögmaðurinn sagði ennfremur að núna liggi að þúsundir manna sem hafa orðið fyrir tjóni – sennilega. Og það tjón þarf að bæta og það liggur þá líka fyrir væntanlega að menn hafi hagnast á þessum svikum og þá er heimild til þess að kyrrsetja eigur þeirra sem hagnast á þessu, kyrrsetja eigur sakborninga. Það hafi komið til greina að fara fram á kyrrsetningu hjá sýslumanni.

Í þættinum í gærkvöldi var upplýst að undanfarnar vikur hafi verið reynt að ná tali af Gunnari Birni Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Procar, og aðaleiganda félagsins, Haraldi Sveini Gunnarssyni. Samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá vék hann hins vegar úr sæti stjórnarformanns Procar, daginn sem Kveikur afhjúpaði svik fyrirtækisins.  Þá sýna gögn úr ökutækjaskrá að eignir, um tuttugu bílar, hafi verið færðir úr eigu Procar og inn í félag á vegum Haralds Sveins, Platinum ehf., sem fer með eignarhlut hans í bílaleigunni. Flestir af bílum félagsins eru hins vegar í eigu Landsbankans annars vegar og bílafjármögnunar Íslandsbanka hins vegar. Engin svör hafa fengist frá þeim um hvort bankarnir hyggist grípa til einhverra aðgerða vegna málsins.  

Umfjöllunina í fréttaskýringaþættinum Kveik í gærkvöldi má sjá hér.