Lúxusbíll Al Thani líklega í tætarann

Lögreglan í London hefur hótað því að senda 94 milljóna króna sportbíl í eyðingu, greiði eigandi hans ekki sekt og leysi bílinn út fyrir tiltekinn tíma. Eigandinn heitir Nasser og er einn bróðir nokkuð vel þekktra „Íslandsvina,“ þeirra Al Thani bræðra frá Qatar, viðskiptavina Kaupþings í íslenska bankahruninu. Nasser þessi, sem er 24 ára,  var stöðvaður af lögreglu í akstri á bílnum fyrir framan Harrod´s stórverslunina á bílnum óskráðum og ótryggðum í Bretlandi og sjálfur var drengurinn án ökuskírteinis. Daily Mail greinir frá þessu.

Bíllinn sem um ræðir er af gerðinni Lamborghini Aventador. Hann er fremur sjaldgæfur og virði hans er talið vera minnst 94 milljónir ísl. kr.

Lundúnalögreglan segir við Daily Mail að það sé orðið fremur algengt að ungir og mjög auðugir menn frá Mið-Austurlöndum séu að aka um götur London að sumarlagi  á mjög dýrum bílum sem bæði séu óskráðir og ótryggðir og það jafnvel í kappakstri um kvöld og nætur. Búið sé að leggja hald á nokkra þessara bíla í sumar. Meðal þeirra séu allmargir Porsche, BMW X5 og einn Ferrari og sé reyndar búið að eyða þeim síðastnefnda.

Al Thani fjölskyldan er þekkt fyrir mikla bíladellu. Í bílaflota fjölskyldunnar er m.a. finna Koenigsegg CCXR «Special One», Lamborghini LP 670-4 SV, og Pagani Zonda «Uno».