Lygar bornar á FÍB

Kristján Möller alþingismaður og fyrrverandi samgönguráðherra hefur mjög horn í síðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda og er óþreytandi í yfirlýsingum um að félagið fari með ósannindi í málflutningi sínum og undirskriftasöfnun gegn vegatollahugmyndum hans.

Kristján Möller er ákafur talsmaður þess að girða höfuðborg Íslands og nágrannasveitarfélög hennar af með vegatollamúrum. Vegatollunum verði svo varið til að greiða af lánum vegna nauðsynlegra framkvæmda við vegina út frá höfuðborgarsvæðinu. FÍB leggst alfarið gegn þessum hugmyndum sem í raun eru fyrsta skref í átt að einkavæðingu þjóðvegakerfisins, sjálfu æðakerfi samfélagsins. FÍB hefur lagt fram skýr rök fyrir sjónarmiðum sínum og í engu beitt fyrir sig ósannindum eins og þingmaðurinn hefur ítrekað haldið fram.

Í umræðum um vegatollamálin á alþingi miðvikudaginn 23. febrúar sl. sagði þingmaðurinn m.a. þetta „Hins vegar fór Félag íslenskra bifreiðaeigenda fór fram með rangar upplýsingar. Ég hefði sjálfur alveg getað skrifað undir undirskriftalistann þeirra eins og hann var settur fram, en nóg um það.“

Síðar í sömu ræðu sagði þingmaðurinn ennfremur: „…Virðulegi forseti. Það sem vantar hins vegar á er að útfæra málið betur og að menn ræði það í ró og spekt án þess að gefa rangar upplýsingar um það eins og FÍB er því miður sekt um.

FÍB gerir alvarlegar athugasemdir við þennan málflutning alþingismannsins þar sem hann í skjóli þinghelgi sinnar vegur gróflega að heiðri frjálsra félagasamtaka. Lesa má útskrift af umræðunni á vef alþingis hér.

Sjálfur hefur hann sem ráðherra og alþingismaður umgengist ýmsar staðreyndir þessa máls afar frjálslega svo vægt sé til orða tekið og reynt að afvegaleiða umræðuna m.a. með óljósu tali um breyttar innheimtuaðferðir á notendagjöldum af þjóðvegum landsins sem séu nánast tilbúnar. Flokksfélagi Kristjáns, Mörður Árnason gagnrýndi þetta hart í sinni ræðu við umræðurnar þann 23. febrúar og sagði m.a:

„ Í upphafi fylgdi það málinu, eins og síðasti hv. ræðumaður minntist á (Sigurður Ingi Jóhannsson), að það gæti farið saman við miklar breytingar í skattheimtu og gjaldheimtu í umferðinni, þ.e. að komin væri ný tækni þar sem hægt væri að innheimta notendagjöld og lækka aðra skatta og gjöld í staðinn. Komið hefur fram að það er ekki rétt, þau eru miklu lengra undan. Þetta mál er óháð því. Það er gott að það sé a.m.k. á hreinu. Það sem eftir stendur er sú ætlan að láta notendur borga fyrir framkvæmdirnar á Suður- og Vesturlandi, um 30 milljarða, að láta einfaldlega þá sem aka vegina borga. Það verða engar hjáleiðir og það verður enginn teljandi sparnaður við minni orkukaup eða bílslit, eins og annars staðar háttar til. Það er mönnum gert að gera á Suðurlandi og Vesturlandi, nálægt höfuðborgarsvæðinu, og auðvitað höfuðborgarbúum sjálfum en ekki annars staðar.

Nú er komin nokkur samstaða um að það gangi ekki á þessu svæði og í nágrannasveitarfélögunum, það verði að gæta jafnræðis. Annað hvort verði fjármögnunin að vera öðruvísi en með tollafyrirkomulaginu eða að sett verði á gjald sem gildi fyrir öll vegamót á landinu. Það er eðlilegt að innanríkisráðherra og ríkisstjórnin hugleiði það og þeir sem standa í þessum verkefnum.“