Malarvegir, blindhæðir, blindbeygjur og vegasauðfé

http://www.fib.is/myndir/Vegarolla2.jpg
Umferðarstofa hefur látið gera fræðslumynd fyrir erlenda ökumenn um akstur á Íslandi. Það er ekki að ófyrirsynju því að undanfarin sex ár - 2000-2005 -hafa 20 erlendir ríkisborgarar farist í umferðarslysum á Íslandi en það er 13,3% af heildarfjölda þeirra sem fórust í umferðarslysum á sama tímabili.
Fjöldi látinna og alvarlega slasaðra árið 2004 voru 138 og þar af voru erlendir ríkisborgarar 17 talsins eða 12,3% af heildarfjölda.

Rætur slysa erlendra ökumanna liggja ekki síst í ókunnugleika og reynsluleysi þeirra í akstri í lausamöl, blindbeygjum, einbreiðum brúm, blindhæðum, búfénaði á vegum og fleiri séríslenskum aðstæðum.
Í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda er sérstaklega kveðið á um átak og áróður fyrir erlenda ökumenn. Í samræmi við þau ákvæði hefur Umferðarstofa gert fyrrnefnda fræðslumynd. Hún er sérstaklega ætluð til að fræða erlenda ökumenn um hættur á íslenskum vegum. Í myndinni eru sýnd dæmi um hvernig aka skal við erfiðar aðstæður. Einnig eru erlendir ökumenn fræddir um ýmsar þær umferðarreglur sem gilda hér á landi og geta verið þeim framandi. Myndin er á fjórum tungumálum og hefur henni verið dreift til fjölda bílaleiga. Hægt er að skoða hana á heimasíðu Umferðarstofu, www.us.is/page/english.

Þá hefur Umferðarstofa í samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörgu gefið út bæklinginn „Have a Safe Journey” og er hann einnig ætlaður til fræðslu fyrir erlenda ökumenn. Ætlunin er að dreifa myndinni og bæklingnum endurgjaldslaust meðal ferðaþjónustuaðila sem eru í tengslum við erlenda ökumenn.