Malbikað í borginni fyrir 1,5 milljarð í sumar

Malbikunarframkvæmdir eru hafnar af fullum krafti í borginni og er ekki seinna vænna að byrja á verkefninu því meiri fjármunum verður varið til endurnýjunar malbiks á þessu ári en nokkru sinni áður.

Gert er ráð fyrir að malbika um 32 km af götum í sumar eða 243 þúsund fermetra en það mun kosta um 1,5 milljarð króna sem er tvöfalt meira fjármagn en lagt var í malbik í fyrra þrátt fyrir að miklu væri bætt við þá einnig. 

Áhersla er lögð á endurnýjun bæði með fræsingu og malbikun, sem og malbikun yfirlaga og er það gert til að koma í veg fyrir miklar og kostnaðarsamar viðgerðir síðar. Að auki og fyrir utan framantalinn kostnað kemur nýtt malbik á götur sem endurnýjaðar eru frá grunni s.s. endurgerð Hafnarstrætis milli Pósthússtrætis og Tryggvagötu, sem og vegna endurgerðar gatnamóta Lækjargötu og Geirsgötu.

Mikið malbikað næstu fimm ár

Í fjárfestingaáætlun næstu fimm ára er lagt til að verið verði 8.380 milljónum króna til verkefnisins. Verið er að vinna upp sparnað fyrstu árin eftir hrun.
Fyrstu þrjú árin (2017 – 2019) verður áhersla lögð á endurnýjun malbiksyfirlagna einkum á umferðarþungum götum til að koma í veg fyrir miklar og kostnaðarsamar viðgerðir síðar.

Á árunum 2020 – 2021 er ætlunin að endurnýja fjölmargar götur sem þá verður tímabært að endurnýja vegna aldurs og eru það einkum íbúðagötur í Breiðholti, Árbæ og Grafarvogi.

Tafir geta orðið á umferð vegna malbikunarframkvæmda í sumar og eru vegfarendur beðnir um að sýna verktökum og borginni þolinmæði vegna þessa.