Margir rafmagnslausir

http://www.fib.is/myndir/Kaldstart.jpg
Hann gæti orðið erfiður í gang, þessi!

Útköll hjá FÍB aðstoð hafa það sem af er árinu verið um það bil þrefalt fleiri en voru á sama tíma í fyrra. Bæði eru meiri kuldar og harðari frost nú en þá. Þar til viðbótar hafa stofnfélagar hjá Sjóvá-Almennum tryggingum nú aðgang að FÍB aðstoð og þess gætir vissulega í starfseminni.

Rafmagnslaus - hvers vegna?

– Þegar lofthiti fer niður fyrir frostmarkið dregur verulega úr virkni rafgeymisins. Því til viðbótar er miklu meir lagt á rafgeyminn þegar kalt er. Við ræsum vélina og þegar hún loks hrekkur í gang kveikjum við á afturrúðuhitaranum, við kveikjum á sætahiturunum og setjum miðstöðina á fullt og ökum síðan í vinnuna.  Algengt er að aksturinn taki þetta korter til hálftíma sem er ekki nóg til að vélin, drifið og gískassinn nái fullum vinnsluhita hvað þá að rafallinn nái að full-hlaða rafgeyminn á ný. Þannig smám saman minnkar á honum uns upp rennur sá morgunn að á geyminum er einfaldlega ekki nógur straumur til að koma bílnum í gang,- segir Ævar Friðriksson tæknistjóri FÍB og FÍB aðstoðar. http://www.fib.is/myndir/FIB-ads-flyer.jpg

Ævar minnir á að þótt það sé hluti af almennri bílaþekkingu að akstur á stuttum vegalengdum í kuldum sé ekki  hollur fyrir bílinn þá gleyma margir því þegar á reynir. – Rafallinn í bílnum nær aldrei að fullhlaða geyminn og þessvegna endist geymirinn miklu skemur en ella, segir Ævar. Hann segir að þegar fólk finnur að startarinn er byrjaður að snúa vélinni miklu hægar en áður við gangsetningu og vélin orðin lengur að hrökkva í gang, þá er það merki um það að geymirinn er orðinn lélegur og kominn tími til að skipta honum út.

Meðal endingartími rafgeymis er fjögur til fimm ár, en ef honum er vel haldið við og séð til þess að hann sé alltaf fullhlaðinn þá getur hann vel enst í tíu ár. Bílar sem notaðir eru á langleiðum þurfa miklu sjaldnar að fá geymum skipt út en bílar sem notaðir eru á stuttum vegalengdum. Vélar og annað gangverk í bílum sem notaðir eru á langleiðum eða lengi í einu, endast líka miklu lengur en í bílum sem aðallega eða eingöngu er ekið stutt í einu og ná sjaldan eða aldrei  eðlilegum vinnsluhita. Vélar venjulegra bíla sem ekið er stutt í einu geta enst 100-200 þúsund kílómetra en sömu bílar sem ekið er lengi í einu geta auðveldlega verið með sömu vélina eftir 500 til milljón kílómetra akstur. Það er því nokkuð til í því sem eitt sinn var sagt, að gangsetning í frosti þýddi vélarslit sem væri sambærilegt við 20 þúsund kílómetra akstur.


Stuttar vegalengdir óhollar

Það er semsé hinar stuttu vegalengdir sem eru óhollastar fyrir bílinn og rafgeyminn. En það er vissulega til mikið þarfaþing sem getur stórlega dregið úr sliti á rafgeymi og vél og vélbúnaði bílsins, það er vélarhitarinn. Vélarhitarinn er í grunninn hitald eða hitaelement eins og í venjulegum hraðsuðukatli. Þegar stungið er í samband við venjulega heimilisinnstungu hitar það upp kælivökvann í vél bílsins. Þegar bíllinn er gangsettur er því vélin heit og fer auðveldlega í gang og miðstöðin blæs heitu um leið og bíllinn er kominn í gang.

Með vélarhitaranum fæst rafmagnsofn sem hitar bílinn að innan áður en hann er gangsettur. Þar með er ekkert hrím á rúðunum og því óþarfi að kveikja á afturrúðuhitaranum. Rafmagnsofninn sér til þess að bíllinn er heitur að innan og þar með er líka óþarfi að vera að kveikja á sætishitaranum. Og af því að vélin er heit þá fer blilinn í gang um leið þannig að minni straumur fer í sjálfa ræsinguna. Þá er bíllinn ekki að eyða dýrmætu eldsneytinu í að hita upp vélina og eyðir þar af leiðandi miklu minna eldsneyti í snattinu. Kostirnir við vélarhitarann eru því margir og miklir en ókostirnir engir aðrir en þeir að þurfa að hafa fyrir að stinga bílnum í samband við rafmagn.

Með vélarhitaranum fæst einnig hleðslutæki sem hleður upp rafgeyminn um leið og vélarhitarinn hitar vélina og rafmagnsofninn hitar farþegarýmið. Þannig er geymirinn alltaf fullhlaðinn og endist því miklu betur.

Fylgstu með rafgeyminum

Þótt félagsmenn FÍB og stofnfélagar í Sjóvá geti hringt í FÍB aðstoð til að ræsa straumlausa bíla sína þá fylgja því alltaf tafir og leiðindi þegar bíllinn fer ekki í gang þegar til á að taka. Ævar Friðriksson tæknistjóri FÍB og FÍB aðstoðar hefur því tekið saman nokkur góð ráð fyrir bíleigendur sem komið geta í veg fyrir það að einn góðan veðurdag sé geymirinn straumlaus og bíllinn fer ekki í gang. Þau eru þessi:

1) Láttu mæla sýruinnihald og vökvastöðu rafgeymisins reglulega og minnst einu sinni á ár. Hægt er að fá þetta gert á smur- og bensínstöðvum. Ef vökvastaðan er of lág dregur úr virkni geymisins eða að hann jafnvel tæmist skyndilega. („kortslúttar“)

2) Þegar geymirinn er orðinn fjögurra til fimm ára gamall er nauðsynlegt að mæla hleðsluspennuna milli rafals og geymis með spennunmæli (Voltmæli). Spennan á að vera 14,2 volt.

3) Athugaðu hvort pólarnir á geymunum eru hreinir og án útfellinga. Hreinsið útfellingar af með volgu vatni og bursta.

4) Ef geymirnn er orðinn fjögurra ára gamall eða eldri, er nauðsynlegt að tengja við hann hleðslutæki og full-hlaða hann yfir nótt amk. tvisvar á ári.

5) Athugaðu viftureimina reglulega. Reimin teygist memð tímanum og slaknar. Ef hún byrjar að „snuða“ á rafalnum nær hann ekki að hlaða geyminn nægilega. 

6) Látið athuga rafalinn eftir 150-200 þ. km akstur.

7) Athugið vélarolíuna reglulega, ekki síst þegar kalt er í veðri. Í miklum frostum getur olían orðið seigfljótandi eins og sýróp. Við þannig aðstæður er alls óvíst að fullhlaðinn geymir dugi til að snúa vélinni í gang. Nýjustu (og dýrustu) fjölþykktarolíur haldast betur þunnfljótandi í kuldum en venjuleg ódýr smurolía.