Martin Winterkorn hættur hjá VW

Alveg burtséð frá því hvort Martin Winterkorn vissi af mengunarsvindlinu hjá VW eða ekki eða hvort hann var sjálfur upphafsmaður að því eða ekki, varð hann að taka pokann sinn. Hann bar ábyrgðina segir kunnáttufólk í markaðsfræðum í ýmsum fjölmiðlum í dag, þar á meðal The Guardian. Með hann við stýrið áfram hefði orðið nánast ómögulegt að byggja á ný upp traust á Volkswagen.

Svindlmálið sem upp komst um í USA í síðustu er sennilega hið stærsta í bílasögunni og afleiðingarnar verða gríðarlegar þegar öll kurl verða komin til grafar, en það er langt í það enn. Rannsóknir eru rétt að byrja og málaferli öll eftir. Á þessari stundu er talið að svindlið nái til um 11 milljón bíla. Innan við hálf milljón þeirra eru í Bandaríkjunum en meginhlutinn hins vegar í Evrópu og Asíu. Það eru ekki bara Volkswagenbílar sem um ræðir því að dísilvélarnar sem fúskið snýst um, eru líka í Audi-, Skoda- og Seatbílum. En Martin Winterkorn vék greinilega ekki úr forstjórasætinu viljugur. Hann sagðist ætla að sitja áfram og í tilkynningu frá VW var fréttum þýskra fjölmiðla um að hann yrði rekinn, vísað á bug sem tómri vitleysu. Annað er nú komið á daginn.

Þær dísilvélar sem fúskið nær til hafa gerðarheitið EA-189. Volkswagen auglýsti þessar vélar þegar þær fyrst voru kynntar sem þær nýjustu og minnst mengandi. Þær mörkuðu tímamót. Í upplýsingaefni fyrir blaðamenn um nýjan Volkswagen Jetta árgerð 2011 segir m.a. að við dísilvélina sé NOx-gildra sem kölluð er Storage Catalytic Converter. Gildra þessi tryggi það að þessi TDI dísilvél sem í bílnum sé, standist mengunarkröfur allra 50 ríkja Bandaríkjanna.

Þessi dísilvél var þvínæst kynnt á ráðstefnu í Vínarborg árið 2008 og Jetta bíllinn með vélinni umræddu var um sama leyti markaðssettur í Bandaríkjunum sem BlueTDI. Í auglýsingum VW segir m.a: „Þetta er einn hreinasti (umhverfismildasti) og sparneytnasti bíll í sínum stærðarflokki í heiminum.“ Á blaðamannafundi í USA sagði Jens Hadler véla- og driftæknistjóri VW að hátt eldsneytisverð og stórefld og sterk umhverfisvitund almennings hlyti að opna augu Bandaríkjamanna fyrir kostum dísilvéla. Hér væri loks kominn dísilbíllinn sem bandarískir bílakaupendur höfuð verið að bíða eftir. Dísilvélar höfðu fram til þessa tíma ekki átt upp á pallborðið hjá bandarískum stjórnvöldum vegna NOx- og sótmengunar. En þarna var allt í einu komin dísilbíll með vél sem stóðst allar mengunarreglugerðir með glans. „Ég trúi því að þessi vél eigi eftir að stuðla að því að dísilvélin slái eftirminnilega í gegn í Bandaríkjunum því að hún er svo sparneytin.... Verkfræðingunum í Wolfsburg hefur tekist að komast yfir hin ströngu NOx  mengunarmörk með endurbótum á innviðum vélarinnar sem sumar hverjar eiga hvergi sinn líka í veröldinni og setja við hana viðhaldsfría NOx gildru,“ sagði tæknistjórinn. En rétt undir síðustu helgi þegar upp komst um fúskið og sala á bílum með þessari vél var stöðvuð í USA, hafði Volkswagen selt 488.123 bíla med EA189-dísilvélinni undir slagorðinu  „Clean Diesel."

NOx-gildrur vinna í stórum dráttum þannig að þær safna NOx samböndunum úr útblæstrinum og umbreytir þeim í vatn og köfnunarefni. Hægt er að hreinsa útblásturinn enn betur með svonefndum BlueTech eða SCR búnaði sem reyndar er talsvert dýr. Hreinsunin gerist með því að sprautað er í útblásturskerfið vökva sem nefnist AdBlue. Í sjóðheitu pústinu umbreytist vökvinn í ammoníak sem gengur í samband við köfnunarefni og við það leysast NOx samböndin upp í frumeindir sínar. Hreinsunin með þessum búnaði er hins vegar mjög mikil því að 90 prósent skaðlegu efnasambandanna hverfa. Gallinn er bara sá að hreinsunin er bæði á kostnað vélaarafls og eyðslan mun eitthvað aukast.