Mazda og Alfa Romeo saman um sportbíl

Mazda MX5, mest seldi sportbíll bílasögunnar mun frá 2015 einnig fást sem Alfa Romeo Spider. Bíllinn verður áfram framleiddur í verksmiðju Mazda í Hiroshima í Japan og frá 2015 mun ný kynslóð hans renna af færiböndunum þar ýmis sem Mazda eða Alfa Romeo.

Mazda er fimmti stærsti bílaframleiðandi Japans og mestöll bílaframleiðsla Mazda fer fram þar. Tap hefur verið á rekstrinum undanfarin fjögur ár. Það er að rekja til þess hve gengi japanska yensins er hátt, en um 80 prósent þeirra bíla sem Mazda framleiðir eru seldir utan Japans og eiga þar í harðri samkeppni við bíla sem framleiddir eru í öðrum og ódýrari efnahagskerfum.

http://www.fib.is/myndir/Mazda-MX-5-Miata.jpg

Tveggja sæta sportbíllinn Mazda MX-5 kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1989. Bíllinn hefur notið fádæma vinsælda alla tíð enda vel byggður og lítt bilanagjarn, einfaldur, léttur og með ágæta aksturseiginleika og síðast en ekki síst á hóflegu verði.

Alfa Romeo Spider hefur lengstum verið að ýmsu leyti líkur Mazda MX5 eða Miata eins og Mazdan kallast í Bandaríkjunum en gengi hans í áranna rás hefur verið sveiflukenndara. Einna hæst reis frægð Spider bílsins á áttunda áratuginum, ekki síst í kjölfar frægrar kvikmyndar sem byggð var að hluta á ferli hryðjuverkamannsins Carlosar. Myndin hét Dagur sjakalans og snerist um samsærismenn sem vildu myrða De Gaulle Frakklandsforseta og fengu „sjakalann“ til þess verks. Breski leikarinn Edward Fox lék hryðjuverkamanninn sem ók Alfa Romeo Spider í myndinni.