Með eða móti landsbyggðinni?

Fimm greina flokkur FÍB um Vaðlaheiðargöng og forsendur þeirra hér á fréttavef FÍB hafa vakið mikla athygli og umtal. Það fer hins vegar nokkuð eftir búsetu fólks hversu vel eða illa fólk hefur tekið greinaflokknum. Neikvæð viðbrögð hafa þó verið færri en vænta hefði mátt. Neikvæðustu viðbrögðin hafa langflest komið frá Akureyri og næsta nágrenni og í þeim hefur það sjónarmið verið efst á lofti að FÍB sé komið í stríð við landsbyggðina og jafnvel reki hatursáróður gegn Norðlendingum og þó sérstaklega Akureyringum. Þetta er auðvitað fráleitt innlegg í málið.

Þess hefur orðið vart að nyrðra hefur fólk verið hvatt eindregið til þess að segja sig úr FÍB sökum meintrar illsku félagsins í garð Akureyringa og Norðlendinga. Sú hvatning hefur lítinn árangur borið. Þá má telja á fingrum annarrar handar sem hafa sagt sig úr félaginu vegna greinaflokksins - mun færri en hafa gengið í félagið eftir að greinarnar um Vaðlaheiðargöng hófu að birtast.

FÍB er félag íslenskra bifreiðaeigenda hvar sem þeir búa á landinu. FÍB  dregur ekki taum eins landshluta eða landsvæðis gegn öðrum og reynir ekki að efna til ófriðar milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar eins og til siðs er að gera meðal margra kjördæmaþingmanna. Eins og nú árar eru ekki til fjármunir í ríkissjóði til að fara út í rándýrar stórframkvæmdir á meira og minna tilbúnum bjartsýnisforsendum sem ekki standast.  Fram á þetta er sýnt með skýrum rökum í greinaflokki FÍB  sem byggður er á nákvæmlega sömu forsendum og gangaáhugamenn nyrðra byggja á. Skotgrafamálflutningur af því tagi að FÍB sé félagsskapur Lattédrykkjufólks í póstnúmeri 101 er kjánalegur og tæpast sæmandi nokkrum manni. FÍB lítur heildstætt á vegakerfi landsins og hagsmuni þeirra sem eiga það og kosta. Það eru allir landsmenn.

Til að auðvelda lesendum að átta sig á staðreyndum málsins heildstætt má nálgast greinaflokk FÍB í heildar samantekt eins og birtast mun í FÍB blaðinu sem dreift verður til félagsmanna í næstu viku. Samantektin er hér á PDF formi. FÍB telur eðlilegt og sjálfsagt að skipst sé á skoðunum um málið og rök og mótrök séu vegin og metin vitrænt. Þeir sem tilbúnir eru að rökræða Vaðlaheiðargangamálið og önnur mál sem tengjast samgöngum og vegakerfi landsins eru velkomnir að birta greinar hér á vef FÍB undir flokknum Aðsendar greinar. Greinar má senda á fib@fib.is eða stefan@fib.is.

-Ritstj.