Meðalgildi CO2-losunar frá bílum lækkar áfram

Losun CO2 frá fólksbílum minnkar ár frá ári.
Losun CO2 frá fólksbílum minnkar ár frá ári.

Í nýrri skýrslu EEA European Environment Agency) kemur fram að meðalútblástur CO2  frá nýjum fólksbílum heldur áfram að minnka. Árið 2020 var hann að meðaltali 108 grömm á ekinn kílómetra og hafði þá minnkað um 14 grömm miðað við árið á undan. Útblásturmagnið er þó mismikið eftir bílaframleiðendum og sömuleiðis er munur á þessu milli einstakra ríkja að því er fram kemur í skýrslunni enda eru bílaflotar einstakra ríkja nokkuð misjafnlega samsettir.

   En á heildina litið standa 10 stærstu bílaframleiðendum álfunnar sig vel og hafa  allir náð hinu opinbera markmiði um minnkaða  meðal-kolefnislosun bíla sinna. Sá tíundi, sem er Volkswagen  reyndist vanta einungis eitt gramm upp á að uppfylla markmiðið.

    Mercedes-Benz sýnir sig að framleiða hlutfallslega flesta rafbíla, bæði hreina rafbíla og blendings- eða tvinnbíla (rafmótor og brunahreyfill). Samanlagt hlutfall hreinna rafbíla og tvinnbíla í framleiðslu Mercedes er rúmlega 20 prósent. Jafnframt er Mercedes hlutfallslega stærst í framleiðslu dísilfólksbíla en þeir eru 46 prósent framleiðslunnar sem þýðir að bensínfólksbílar eru einungis þriðjungur bílaframleiðslunnar hjá Mercedes -Benz.

    Í heild hefur hlutur hreinna rafbíla í Evrópuríkjunum í heild þrefaldast milli 2019-2020 og farið úr 1,2 í 5,2 prósent. Í Svíþjóð er hlutfall hreinna rafbíla í bílaflota landsins nú komið í 9,5 prósent en hlutur tvinnbíla 22,3 prósent. Í Hollandi hefur rafknúnum bílum  (hreinum raf- og tvinnbílum) fjölgað mest milli 2019 og ´20. Hreinir rafbílar voru 20,5 prósent nýrra seldra bíla árið 2020 en tvinnbílar 4,3 prósent. Þá sker Ítalía sig úr öðrum Evrópuríkjum því þar eru dísilfólksbílar hlutfallslega flestir þrátt fyrir að sala þeirra drægist saman sex prósent milli áranna 20019 og ´20.