Meira en milljón Kínaskódar

Liðin er sú tíð þegar Skoda var ekki sérlega hátt skrifað vörumerki og Skódabílar ekki beinlínis þau ökutæki sem unga menn vestan megin við járntjaldið dreymdi um að eignast. En venjulegt íslenskt vinnandi fólk átti  svo sem ekki margra annarra kosta völ í gjaldeyrisskorti og verslunarhöftum eftirstríðsáranna en fá sér austantjaldsbíl og þá var það annaðhvort Skódi eða Moskvits. En nú er Skoda aftur kominn í úrvalsflokk evrópskra bíla.

Skódaverksmiðjurnar í Mladá Boleslav í Tékkóslóvakíu (nú Tékklandi) byggja  á sterkri tæknihefð. Á millistríðsárunum voru þar byggðir bílar sem þóttu þá með því besta sem í boði var. Eftir strið þegar Tékkóslóvakía verður alþýðulýðveldi 1948 var stundum engu líkara en tékknesku bílasmiðirnir þyrftu að gæta þess að vanda sig alls ekki, til að styggja ekki herraþjóðina, Rússana, með því að byggja betri bíla en þeir réðu við.

Tékkarnir höfðu nefnilega á millistríðsárunum byggt ágæta bíla, m.a. Skoda Superb sem var á þeim tíma sá bíll sem þjóðhöfðingjar, kvikmyndastjörnur og frægðarfólk  kaus helst. Skoda Superb nútímans er líka ágætur bíll, sérlega rúmgóður og traustur þótt verðið sé fremur hófstillt.

Og nú er Skoda Superb líka framleiddur í Kína og þar á hann stóran þátt í þeirri velgengni sem Skoda nýtur á þessum risastóra bílamarkaði um þessar mundir. Sex ár eru nú liðin síðan Skoda hóf landnám í Kína og á þeim tíma hafa rúmlega milljón Skódar verið byggðir í Volkswagenverksmiðjunni í Shanghai. Það er um það bil 10 prósent þeirra rúmlega tíu milljón bíla sem byggðir hafa verið í verksmiðjunni síðan hún tók til starfa árið 1983.