Meira fjármagn þarf til að klára Vaðlaheiðargöng

Nú er gert ráð fyrir að framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng fari nokkuð fram úr upphaflegum áætlunum en fram kom í Fréttablaðinu í gær um málið að göngin myndu kosta 3.2 milljörðum meira en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Fram kemur einnig í blaðinu að unnið sé að því að fá viðbótarlán frá ríkinu vegna þessa en búist er við að kostnaðurinn gæti enn aukist þar sem greftri er enn ekki lokið í göngunum.

Miklar seinkanir hafa orðið á framkvæmdum við göngin en í upphafi gerðu áætlanir ráð fyrir því að þau yrðu tekin í notkun 2016 en mjög erfitt hefur reynst að fara í gegnum berglög og þær jarðfræðilegu aðstæður sem í fjallinu eru. Endurtekin vandamál vegna vatnsleka hafa tafið verkið með tilheyrandi kostnaði eins og margoft hefur komið fram í fréttum. Þetta og annað gera það að verkum að miklar tafir hafa verið á framkvæmdum og er nú talið að göngin opni ekki fyrir umferð fyrr en sumarið 2018.

Að sögn Valgeirs Bergmann, framkvæmdastjóra Vaðlaheiðarganga hf eru menn ekki komnir fram úr lánsheimildinni ennþá og enn er verið að vinna á fjármagni sem var lánað að upphæð 8,7 milljarðar. Umrædd lánsfjárhæð mun væntanlega duga út gegnumslagið eða fram á sumarið.

„Það er hins vegar alveg ljóst, og hefur legið fyrir, að það þarf meira fjármagn til að fullklára verkið. Það er mjög erfitt að segja til um endanlegan kostnað, óvissu þættir eru enn til staðar, en í dag eru um 440 metrar eftir. Það má hins vegar segja að framkvæmdir ganga ekki rosalega vel um þessar mundir en jarðlögin eru að tefja mikið fyrir. Í þeim efnum eru það setlög Eyjarfjarðarmegin og laust berg á köflum með hækkandi setlag Fnjóskadalsmeginn sem gera mönnum erfitt fyrir. Það er alveg ljóst að framkvæmdin verður öll dýrari en upphaflega var gert ráð fyrir og verktíminn er líka töluvert lengri en menn áætluðu.Það þarf meira fjármagn og í því erum við að vinna með með fjármálaráðuneytinu og Seðlabankanum. Á meðan að jarðgangagröftur er í gangi þá er alltaf óvissa um verklok. Þegar gegnumslaginu verður lokið þá verða um það bil 15 mánuðir eftir að framkvæmdinni ef allt gengur eftir,“ segir Valgeir Bergmann.

Jarðgöng undir Vaðlaheiði verða um 7,5 km löng og munu stytta leiðina milli Akureyrar og Húsavíkur um 16 km. Vinna við gangagröft hófst sumarið 2013. Þess má geta að alls voru grafnir 23,5 metrar í síðustu viku.