Merkja betur og taka niður hraðann

Töluverðar umræður hafa verið um öryggi brúa hér á landi í kjölfar slyssins þegar bíl fór fram af brúnni yfir Núpsvötn á milli jóla og nýjárs. Bílinn snarsnerist á brúnni, lenti uppi á vegriði og steyptist þaðan niður á aurana fyrir neðan. Um átta metra fall var um að ræða. Þrennt lét lífið í slysinu, allt erlendir ríkisborgarar, fjórir aðrir slösuðust alvarlega en eru á batavegi.

Rannsókn á slysinu stendur yfir en upplýsingar um niðurstöður hennar verða ekki gefnar fyrr en að henni lokinni. Fram hefur komið að brúin yfir Núpsvötn stenst ekki nútíma kröfur og er haft eftir Ólafi Guðmundssyni , fyrrverandi tæknistjóra EuroRap á Íslandi og umferðaröryggissérfræðings, að brúin sé ein af mörgum brúa í þjóðvegakerfinu hér á landi sem eru börn síns tíma.

Brúin yfir Núpsvötn var byggð 1975 eftir þeim viðmiðum sem þá voru en þetta stenst engan veginn þær kröfur sem gerðar eru í dag. Vegriðið sé of lágt og stoðir ekki nógu sterkar. Tilgangur vegriða er að koma í veg fyrir að bílar fari fram af brúm. Líkur er taldar á því að afstýra hefði mátt svona alvarlegu slysi ef vegrið brúarinnar stæðist nútímakröfur. Nýrri brýr sem byggðar hafa verið á Íslandi eru komnar með vegrið sem standast þessar kröfur.

Ólafur Guðmundsson sagði á Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun nýliðið ár ekki gott hvað umferðin áhrærir en 18 manns létu lífið í 15 alvarlegum umferðarslysum. Árið 2018 er þriðja versta árið í umferðarsögunni á síðustu tíu árum.

,,Okkur hefur ekki tekist að fækka umferðarslysum eins og að var stefnt sem segir að við séum ekki á réttri leið í þessum efnum. Allar stóru brýnar eru flestar barn síns tíma. Ég hef áður minnst á það að ég var með hnút í maganum fyrir árið í fyrra hvað varðar brýr annars vegar og jarðgöng hins vegar. Við fengum áminninguna á milli jóla og nýjárs og þá gerðist það sem maður óttaðist, brúin hélt ekki og bíllinn fór fram af þessari stóru brú. Við erum kominn með stóra áminningu á það að við verðum að taka á okkur tak hvað varðar þessa stóru áhættuþætti sem eru brýrnar og jarðgöngin,“ sagði Ólafur í Morgunútvarpi Rásar 2.

Ólafur segir öll jarðgöngin okkar ekki byggð samkvæmt stöðlum frekar en brúarhandriðin. Viðbrögðin í þeim er ekki fyrir hendi, ekki gæsla í þeim og sum þeirra eru ekki með myndbandseftirlitskerfi þannig að vitum ekki hvað er að gerast þarna inni. Ef upp kæmi eldur verður ekki við neitt ráðið. Slökkvilið og aðrir aðilar hafa hvorki tæki né þjálfun í því að bregðast við alvarlegum atburðum í jarðgöngum.

,,Við þurfum að merkja einbreiðubrýrnar miklu betur en gert er. Merkja þær skýrar og taka niður hraðann. Þetta myndi ekki kosta mikið en auka öryggið til muna,“ segir Ólafur.