Mest álag á bensín í september

The image “http://www.fib.is/myndir/Bensinbyssa2.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Samkvæmt útreikningum FÍB á þróun álagningar oliufélaganna á eldsneyti nú í ár voru neytendur að bera hæstu álagninguna af bensíni í liðnum september mánuði. Í september var meðalkostnaður neytenda af flutningi og álagagningu af bensíni um 30 krónur á hvern lítra. Sveiflurnar eru miklar því í apríl var þessi sami kostnaður ríflega 20 krónur. Það var greinilega meiri samkeppni um bensínverðið í vor en nú í haustbyrjun.

Þróunin hefur verið önnur varðandi dísilverðið. Álagning á dísilolíu var hæst það sem af er þessu ári í júní. Á vormánuðum og fram á mitt sumar fór álagning á dísilolíu í fyrsta skipti á liðnum árum yfir álagninguna á bensínið. FÍB vakti athygli á þessu í sumar og í kjölfarið urðu þær breytingar að álagningin á dísilolíuna lækkaði en hækkaði á bensínið.

Ljóst er að íslenskir neytendur borga umtalsvert hærri álagningu en flestir aðrir. Eldsneytið er eðlilega dýrara vegna smæðar markaðarins og fjarlægðar frá innkaupahöfnum . Álagningin hér á landi er mjög há samanborið við Svíþjóð. Samkvæmt gögnum frá samtökum sænskra olíufélaga SPI (www.spi.se) þá er heildarálagning (bruttomarginal) á bensín og dísilolíu í Svíþjóð vel undir 10 krónum íslenskum á hvern lítra. Sænski markaðurinn er mun stærri en sá Íslenski en landið er líka mjög stórt og dreifbýlt. Líkt og sjá má í meðfylgjandi grafi þá borga íslenskir neytendur að meðaltali yfir 100% hærri álagningu en sænskir.

Íslensku olíufélögin urðu uppvís af grófum samráðsbrotum gagnvart neytendum fyrir fáum árum. Samráðið bitnaði harkalega á rekstrarskilyrðum fyrirtækja og hag almennings. Nýir eigendur hafa komið að gömlu félögunum með skuldsettum yfirtökum og nýtt fyrirtæki haslað sér völl. Eftir sem áður ber íslenski markaðurinn flest einkenni fákeppni. Því miður hafa eftirlitsstofnanir ríkisins ekki veitt olíumarkaðnum nægt aðhald eftir að samráðsmálin voru upplýst. Samkeppni er af hinu góða en yfirgangur í krafti stærðar er ekki í samræmi við eðlilegar leikreglur á markaði í siðuðu samfélagi.

Útreikningar FÍB miðast við daglega skráningu heimsmarkaðsverðs á bensíni og dísilolíu á Rotterdammarkaði. Heimsmarkaðsverðið er framreiknað út frá daglegu gengi íslensku krónunnar gagnvart bandaríkjadal yfir í krónur á hvern lítra. Viðmiðunarverðið varðandi útsöluverð er sjálfsafgreiðsluverð á þjónustustöðvum N1, Olís og Shell á hverjum degi. Frá sjálfsafgreiðsluverðinu dragast skattar og heimsmarkaðsverð. Þá stendur eftir kostnaður við flutning og álagning olíufélaganna.


http://www.fib.is/myndir/Bens-dis-okt07.jpg