Mest seldu bílarnir í Evrópu

Mest seldi bíllinn í Evrópu á liðnu ári var Volkswagen Golf. Þar með hefur VW Golf fimm sinnum orðið söluhæsti bíll álfunnar frá aldamótaárinu 2000. Einungis Opel Astra og Peugeot 206/207 hafa megnað að veita Golfinum einhverja samkeppni undanfarinn áratug. Á nýliðnu ári var það hin nýja Ford Fiesta sem veitti Golfinum hvað harðasta samkeppni eins og sjá má á listanum hér að neðan.

Það er markaðsfyrirtækið Jato Consult sem tekur árlega saman sölutölur á Evrópska efnahagssvæðinu. Í nýbirtri skýrslu Jato fyrir árið 2009 segir að það hafi einkum verið smábílar og minni meðalbílar sem seldust á síðasta ári í álfunni og þar hafi sérstaka skilagjaldið á eldri eyðslufreka bíla sem mörg Evrópuríki komu á, ráðið mestu um. Skilagjaldið var víðast hvar mjög rausnarlegt og fékkst greitt út sem afsláttur af verði nýrra sparneytinna bíla gegn því að gamla bílnum yrði eytt.

En í ár er ekkert slíkt skilagjald í augsýn neinsstaðar í álfunni þannig að bakslag í bílasölunni er vel hugsanlegt. Slíkt bakslag gæti þannig komið illa við þá bílaframleiðendur sem mesta áherslu leggja á að framleiða smábíla. Jato telur á hinn bóginn að meiri stöðugleiki verði í framleiðslunni á meðalstórum og stórum bílum og að framleiðsla á gæðabílum (Premium) gæti jafnvel aukist nokkuð frá því sem hún var á síðasta ári.

Bíltegund Sala 2009 Sala 2008 Munur í %
VOLKSWAGEN GOLF 571.838 461.539 +23,9%
FORD FIESTA 472.091 327.828 +44,0%
PEUGEOT 207 367.160 406.718 -9,7%
OPEL/VAUXHALL CORSA 351.807 360.761 -2,5%
FIAT PUNTO 323.536 279.115 +15,9%
RENAULT CLIO 312.925 335.920 -6,8%
FORD FOCUS 309.134 364.226 -15,1%
FIAT PANDA 298.914 223.441 +33,8%
VOLKSWAGEN POLO 282.780 276.077 +2,4%
OPEL/VAUXHALL ASTRA 275.638 320.878 -14,1%