Mesta ferðahelgi ársins fram undan – hvernig er ástand bílsins?

Ein mesta ferðahelgi ársins, verslunarmannahelgin er framundan. Ferðavenjur hafa breyst og sérstaða verslunarmannahelgarinnar er ekki eins mikil og áður því nú eru flestar helgar yfir sumarið orðnar stórar ferðahelgar og víða bæjarhátíðir. 

Nú síðustu árin hefur stóraukinn fjöldi ferðamanna bæst við umferðina á vegum landsins akandi á bílaleigubílum eða eigin bílum.

Þeir sem hyggja á ferðalag í heimilisbílnum um helgina ættu að athuga ástand bílsins áður en lagt er af stað. Allir vilja forða því að vera með bilaðan bíl fjarri heimili og oft er erfitt að fá þjónustu yfir háannatímann og utan hefðbundins þjónustutíma.  Óvæntri bilun fylgja oftast útgjöld og stundum mikil. 

Félagar í FÍB njóta þess að hafa aðgang að neyðarþjónustu FÍB Aðstoðar allan sólarhringinn 365 daga ársins.  Aðstoðin er án endurgjalds fyrir FÍB félaga innan þjónustusvæða FÍB Aðstoðar í samræmi við skilmála sama á við um símaaðstoðina sem veitir góð ráð og upplýsingar um þjónustuaðila. Símanúmer FÍB Aðstoðar er 5-112-112.  Sjá nánar um FÍB Aðstoð

Það er frumskilyrði að ástand ökutækis sé gott áður en lagt er af stað í ferðalag. Ef viðgerðar er þörf, þá verður að gera ráðstafanir tímalega. Oft tekur daga eða vikur að fá tíma hjá bifreiðaverkstæði og einnig getur bið eftir varahlut tafið enn frekar. Á ferðalögum er bíllinn oftast meira hlaðinn og vegir misgóðir þannig að álagið er meira en við daglegan akstur. Bíleigendur geta farið yfir ástand bílsins að hluta sjálfir en hemla og annan öryggisbúnað á að láta fagmenn athuga. Sjá nánar um sumarakstur

Dekkin

Mikið hefur verið leitað til félagsins vegna vandræða ferðalanga í tengslum við dekk.  Það hefur borið á því að fólk sé á ferðalagi án þess að hafa varadekk sem hægt er að nota í neyð.  Þetta á bæði við um dekk undir bíla og ferðavagna.  Áður en lagt er af stað í ferðalagið verður að fara vel yfir ástand hjólbarða og varahjólbarða. 

Sumir nýrri bílar eru ekki með varadekk í fullri stærð og í sumum bílum er ekkert varadekk einungis dekkja þéttiefni og loftdæla. Mikilvægt er að kynna sér vel hvernig á að nota loftdæluna og þéttiefnið.  Dekkja þéttiefni gerir lítið gagn ef rifa kemur á hlið dekks. 

Stundum er hægt að bjarga sér með dekkjatöppum og lími ef gat kemur á hlið og þá þarf einnig að hafa loftdælu til að blása upp dekkið.

Dekk verða að vera í lagi. Munsturdýpt má ekki vera minni en 1,6 mm. Ef framundan er langt ferðalag er ekki óeðlilegt að miða við 2-3 mm munsturdýpt til að mæta dekkjasliti á ferðalaginu. Álag og slit á hjólbörðum eykst í hlutfalli við þyngd farþega og farangurs.

Kannið loftþrýsting dekkja og athugið ástand varahjólbarða. Loftþrýsting þarf að auka ef bifreiðin er mikið hlaðin. Sé loftþrýstingur of mikill eða of lítill minnkar snertiflötur hjólbarðanna og um leið veggrip þeirra.

Yfirleitt eru upplýsingar um réttan loftþrýsting að finna í handbók bílsins en einnig má spyrjast fyrir hjá þeim sem til þekkja svo sem hjá bifvélavirkjum, starfsmönnum hjólbarðaverkstæða eða skoðunarstöðva.

Einnig er mikilvægt að jafn loftþrýstingur sé í hvoru framhjóli og hvoru afturhjóli fyrir sig. Nánar um dekk

Verkfæri & Öryggisbúnaður

Yfirfarið verkfærasett bílsins. Gott er að smyrja tjakkinn og jafnvel fleiri verkfæri. Eftirfarandi verkfæri er ráðlagt að hafa í bílnum: Felgulykil, skiptilykil, átaksstöng, kertalykil, skrúfjárnasett, bittöng, loftþrýstimæli og vasaljós.

Það er skylda að hafa viðvörunarþríhyrning í öllum bílum og að auki mælum við hjá FÍB með því að í bílnum sé sjúkrataska (-kassi), öryggisvesti, dráttartóg, bensínbrúsi og ekki gleyma sólgleraugunum. 

Mikið og gott úrval öryggisvara fæst í verslun FÍB Skúlagötu 19 Rvk og netverslun.

  

FÍB ráðleggur bíleigendum eftirfarandi áður en lagt er af stað í langferð:

Kanna ástand dekkja og loftþrýsting

Kanna olíustöðu á vél

Yfirfara virkni ökuljósa og ljósabúnað

Athuga kælivökva

Kanna ástand og stillingu viftureimar (slit?, slaki?)

Athuga vatnsstöðu rafgeymis (eimað vatn)

Hreinsa póla á rafgeymi og leiðslur með fínum sandpappír eða vírbursta

Fara yfir og smyrja hurðalamir o.fl.

Kanna ástand höggdeyfa

 

Umhirða og Þvottur

Með reglubundnum þvotti og góðri umhirðu endist bíllinn mun lengur og verður síður ryði að bráð. Byrjið á að spúla bílinn vel. Best er að nota háþrýstiþvottatæki en einnig er hægt að notast við vatnsslöngu með bunustilli. Varast ber að nota ekki of mikinn vatnsþrýsting á lista í kringum glugga. Æskilegt er að þvo undirvagninn sérstaklega á þeim landsvæðum þar sem vetrarsöltun er viðvarandi eða þar sem malarvegir eru enn. Spúla þarf vel þar sem salt og aur geta setið í s.s. undir brettaköntum og kringum hjól.

Hreinsun að innan

Takið yfirmotturnar úr bílnum og ryksugið bílinn að innan. Á flestum bensínstöðvum eru góðar og kraftmiklar ryksugur sem viðskiptavinir hafa aðgang að. Heimilisryksugur eru í flestum tilvikum ekki ætlaðar til notkunar utanhúss eða þar sem hætta er á raka. Mikilvægt er að teppi séu ekki blaut eða rök undir gúmmímottum. Raka verður að þerra upp til að hindra óæskilega lykt og myglu. Best væri að þurrka undir teppum en í flestum nýrri bílum er það illframkvæmanlegt. Gott húsráð er að setja gömul dagblöð undir gúmmímottur og draga rakan þannig úr teppum. Þvoið rúður að innan með rúðuhreinsiefni og þrífið mælaborð, hurðarspjöld og annað inni í bílnum með rakri tusku. Hægt er að fríska upp á plast- og vínilhluti með sérstökum glansefnum.

Bónun

Það borgar sig að bóna bílinn reglulega. Lakkið fær fallegri glansáferð og bónið ver lakkið skemmdum. Lakkið þolir meira álag og hrindir frá sér vatni. Auðveldara er að halda bílnum hreinum þar sem bónið dregur úr viðloðun óhreininda. Ef lakkið á bílnum er matt getur þurft að fara yfir með massabóni. Bíllinn á að vera hreinn og massabónið er borið á með hringstrokum og nuddað vel. Massabón getur verið erfitt í meðförum og æskilegt að bera aðeins á litla fleti í einu. Á eftir er flöturinn þurrkaður með hreinni tusku þar til gljáinn er kominn fram. Að bóna bíl er frekar létt verk með tilkomu nýrra og meðfærilegra efna. Í flestum tilvikum er hægt að bera þunnt bónlag á allan bílinn í einu. Bónið þornar á lakkinu og myndar hvíta himnu sem auðvelt er að pússa af. Bónið aldrei í sterku sólarljósi til að forða því að bónið brenni inn í lakkið.

Eftir einn ei aki neinn                                                                                                                                                                                         

Loks má minna á um þessa miklu ferða- og skemmtanahelgi að fólk gæti sín á því að snerta ekki bílinn eftir að búið er að fá sér í tána. Þótt það sé margtuggin tugga að akstur og áfengi fari ekki saman þá er hún í fullu gildi engu að síður. 

Þessi einföldu ráð og tveir til þrír tímar í vinnu geta sparað verulega í viðhaldi, aukið öryggi og létt á  samviskunni.

Góða ferð!