Metaðsókn í Frankfurt

IAA bílasýningunni í Frankfurt er nú ný lokið. Sýningin er haldin annað hvert ár og gestir að þessu sinni voru um 10 prósent fleiri en síðast eða alls 928 þúsund. Sýnendur voru ríflega þúsund talsins frá 32 löndum og sýningarsvæðið var 235 þúsund fermetrar sem er fjórum hekturum stærra en síðast.

Bílasýningin í Frankfurt er ein sú stærsta í veröldinni, ef ekki sú stærsta. Þar eru jafnan þýskir bílaframleiðendur sem og aðrir evrópskir fyrirferðarmiklir. Á Frankfurtsýningunni hefur skapast vísir að þeirri hefð að sýna þar nýjar gerðir bíla og nýja hugmyndarbíla sem eru tilbúnir til fjöldaframleiðslu eða því sem næst. Frumgerðir þar sem ímyndunarafli er gefinn laus taumur er yfirleitt frekar að finna á árlegu bílasýningunni í Genf sem að þessu sinni verður haldin í mars nk.

Evrópskir fjölmiðlar hafa mikið fjallað um Frankfurtsýninguna meðan hún stóð yfir, Þeirra á meðal er þýska tímaritið Der Spiegel. Hér eru myndaraðir tímaritsins frá sýningunni. Hér má sjá nokkrar frumgerðir sem sýndar voru og hér er önnur myndröð af nýjum bílum sem ýmist eru komnir í fjöldaframleiðslu eða á leið þangað.