Metanknúnir bílar áfram vörugjaldfríir

Um nýliðin áramót voru framlengd um eitt ár lög um niðurfellingu vörugjalda á bíla sem knúnir eru innlendum orkugjöfum, svo sem metangasi, rafmagni og vetni. Undanfarin ár hafa þessi lög verið framlengd um hver áramót, en þau gilda í eitt ár hverju sinni og hafa gert um rúmlega áratugs skeið.  Niðurfellingin þýðir það að t.d. metangasknúnir bílar, sem í rauninni eru bílar með hefðbundnum bensínvélum og aukabúnaði til gasbrennslu, bera engin vörugjöld við innflutning. Á hinn bóginn bera bílar sem ekki eru með ísettan búnað til gasbrennslu 30-45 prósenta vörugjald sem leggst ofan á verð bílsins við verksmiðjudyr.

Það þýðir að metanknúnir fólksbílar með vélum sem eru minni en tveir lítrar að rúmtaki bera engin vörugjöld. Sambærilegir fólksbílar knúnir hefðbundnum orkugjöfum bera á hinn bóginn 30% vörugjöld.  Í nýjasta tölublaði FÍB blaðsins sem út kom rétt fyrir jólin, er greint frá reynsluakstri á metanknúnum Volkswagen Passat EcoFuel. Sá bíll kostar í dag 4.250.000 kr. Nákvæmlega eins bíll en án búnaðar til að ganga fyrir metangasi kostar hins vegar 4.910.000 kr. Metangasbílar eins og VW Passat EcoFuel eru alltaf með bensíntank og ef gasið klárast í akstri skiptir bíllinn sjálfur  yfir á benínbrennslu.

 Í frétt frá Heklu, umboðsaðila Volkswagen segir að metanbílar hafi verið seldir á Íslandi í 10 ár og séu metanbílar frá Volkswagen um 80 prósent metanbílaflotans. Aðrar tegundir metanknúinna bíla á Íslandi eru  t.d. Citroen og Mercedes Benz. Í dag eru að því er fram kemur í frétt Heklu, fáanlegar fjórar megingerðir metanknúinna Volkswagenbíla. Þær eru Volkswagen Passat, Volkswagen Touran, Volkswagen Caddy sendibíll og Volkswagen Caddy Life fjölnotabíll.

Eldsneytiskostnaður metanknúinna bifreiða er allt að helmingi lægri en samskonar bensínknúinna bíla. Það er vegna þess að hver eining metans sem svarar til eins lítra af bensíni kostar aðeins 87,5 kr. Drægni metanknúinna bíla er hátt í 900 kílómetra. Þar af kemst bíllinn um helming þeirrar vegalengdar á metangasinu. Í dag eru tvær metanstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Þær eru á eldsneytisstöðvum N1 í Ártúnsbrekku og við Helluhraun í Hafnarfirði. Þá mun stefnt að metanvinnslu á Akureyri og etv. víðar um landið.

Næg framleiðsla er á metani hér á Íslandi til að knýja áfram að minnsta kosti 3.500 bíla miðað við núverandi framleiðslugetu í Álfsnesi. Metanbílar á Íslandi eru hins vegar sárafáir eða innan við 100 eftir því sem næst verður komist. Metanvæðing ökutækja er vissulega ein leið til að minnka útblástur íslenska bílaflotans eins og íslensk stjórnvöld hafa boðað. Metan telst vera mjög öflug gróðurhúsalofttegund og er skylt samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum og samningum að brenna því til að draga úr óæskilegum áhrifum þess, komist það út í andrúmsloftið. Það metan sem ekki tekst að nýta til samgangna eða á annan gagnlegan hátt er af þessum sökum einfaldlega brennt til einskis gagns.