Metnaðarleysi ráðamanna algjört – hingað og ekki lengra

Í fréttaskýringaþættinum Kveik á Ríkissjónvarpinu, þar sem tekið er á málefnum bæði innanlands og utan, var í gærkvöldi til umfjöllunar ástandið á vegakerfi landsins og annað sem að því lítur. Það hefur ekki farið framhjá þeim sem um vegi landsins fara að ástand þeirra er afar báborið víða. Uppbygging og alla lagfæringu á þessu sviði hefur skort um árabil. Þetta ástand hefur víða skapað mikla hættu og mörg slys og óhöpp má beinlínis rekja til slæms ástands vega. Vegir eru holóttir, það eru djúp hjólför í þeim, og svo hefur malbik og klæðningar á vegum skapað hættu eins og dæmin hafa sannað á síðustu misserum.

Í fréttaskýringaþættinum Kveik kom fram að Vegakerfi ríkisins er um 13.000 kílómetra langt. Af þeim eru um 5.600 með bundnu slitlagi en annað eru malarvegir. Ólafur Kr. Guðmundsson, sérfræðingur í umferðaröryggi, var einn viðmælenda í þættinum í gærkvöldi. Hann sagði í samtali við FÍB að full ástæða væri að ræða þessi mál ofan í kjölinn. Það hefði mátt miklu fyrr enda ástandið í þessum málum víða slæmt.

Ástandið hefur kostað okkur mannslíf

,,Þetta hefur kostað okkur mannslíf og skemmst er að minnast slyssins á Kjalarnesi nú í sumar. Malbikið er víða bara ekki í lagi og menn þurfa heldur betur að taka sig saman í andlitinu í þessum málum. Bara eftir Kveikþáttinn í gærkvöldi hef ég fengið ábendingar um slæmt ástand á malbiki á fjölförnum vegum hér á höfuðborgarsvæðinu,” sagði Ólafur við FÍB.

Vegakerfið búið við fjársvelti í mörg ár

,,Ég segi bara, hingað og ekki lengra. Það er búið að vera baráttumál FÍB í gegnum tíðina að vegir landsins séu eins öryggir og verða má. Mér finnst ekki alfarið við Vegagerðina að sakast heldur miklu fremur við ráðamenn þjóðarinnar þar sem  metnaðarleysið hefur verið algjört.  Lítið fjármagn hefur rennt í þennan málaflokk alla tíð og við erum að súpa seyðið af því núna. Vegakerfið hefur búið við fjársvelti lengi og því hefur FÍB alla tíð harðlega gagnrýnt. Þessum málaflokki hefur ekki verið sinnt sem skildi og við erum að fá það í andlitið núna svo um munar.”

Það er komið að skuldadögum

,,Við getum sagt að það sé komið að skuldadögum. Bíleigendur eru að greiða 80-90 milljarða í ýmiskonar skatta  á hverju ári. 20 milljarðar af þeirri upphæð er að renna í veggerð. Þetta er bara ekki í lagi. Það er runninn upp stund að ráðamenn þjóðarinnar hugsi sitt ráð,” sagði Ólafur Kr. Guðmundsson í samtalinu við FÍB.

Meira og minna eitthvað að

Í máli Ólafs á Kveik í gærkvöldi kom fram að í kringum 2013-14 fór hann að hella sér svolítið út í malbikið og reyndi að afla sér einhverra upplýsinga um hvað væri í gangi hérna. Hann hitti malbikunarstöðvarnar og þá sem hafa séð um þetta og Vegagerðina og fór yfir þetta með fólki, hvað væri að. Fyrst hélt maður að það væri eitthvað eitt að en svo kom í ljós að það var bara eiginlega allt að. Ef við tölum bara um mölina, hvaða bik er notað í þetta, hitastig, þykktin, undirlag - það var meira og minna eitthvað að alls staðar. Svo safnast þetta náttúrulega saman í ástandið eins og það er.

Hægt er að skipta bundnu slitlagi í tvo flokka, malbik og klæðningu. Sameiginlegt með þeim er að bik og steinefni eru notuð í hvort tveggja en mikill munur er á lagningu, meðferð, efnasamsetningu og uppbyggingu veganna. Og vandamálin sem tengjast þeim eru ekki þau sömu.

Flestir vegir utan suðvesturhornsins eru klæddir en ekki malbikaðir. Þá er bik þynnt út, blandan lögð á veginn og steinefni lagt yfir og því þjappað ofan í blönduna, fyrst með valtara en bílarnir sjá svo um afganginn. Við þetta verður til eins og hálfs sentimetra þykkt slitlag á veginum.

Vegfarendur vöruðu Vegagerðina við stórhættulegum vegarkafla 

Í sumar varð alvarlegt umferðarslys á Kjalarnesi þegar bifhjól og bíll skullu saman. Tvö létust í slysinu og einn var fluttur slasaður á sjúkrahús. Vegfarendur reyndu að vara Vegagerðina við stórhættulegum vegarkafla á Kjalarnesi daginn fyrir slysið. Það var hins vegar ekki mögulegt að ná sambandi utan skrifstofutíma. Það eitt sér er grafalvarlegt þegar vegfarendur geta ekki komið ábendingum til veghaldara landsins þegar upp kemur staða eins og þessi á Kjalarnesi í sumar.

Í þættinum kom fram í máli Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar, að stofnunin vildi gjarnan að vegir þar sem umferð er komin vel yfir 2.000 bíla, svo ekki sé talað um 3.000 bíla, séu malbikaðir. Okkur er sannarlega ekki að takast það enda hefur umferðin aukist mjög hratt á stuttum tíma.

„Þetta eru bara risastór samgönguverkefni, að koma malbiki á vegi. Það er yfirleitt ekki hægt að klæða þá beint, sem sagt þegar við förum í það að setja malbik þá förum við líka í að meta burðarlag vegarins, breidd hans, frágang á vegöxlum og annað slíkt. Við erum náttúrulega í svakalega stórum verkefnum, eins og Kjalarnesið er að fara af stað núna og Suðurlandsvegurinn, þar sem verið er að endurbyggja þessa gömlu vegi þar sem umferðin er orðin gríðarleg,“ sagði Bergþóra í Kveik.

Hér má nálgast samantekt úr Kveik í umfjöllun um málið.